Þorfinnur Ómarsson, upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins hefur látið af störfum hjá ráðuneytinu.

„Ég var aðeins ráðinn út apríl og lét því af störfum nú fyrir helgi,“ segir Þorfinnur í samtali við Viðskiptablaðið.

Þorfinnur segir síðustu mánuði hafa verið lærdómsríka og hann hafi kunnað því vel að starfa hjá ráðuneytinu. Hann segir að vissulega hefði verið gaman að vinna í jákvæðari aðstæðum en engu að síður hafi þetta verið mikil og góð reynsla.

Þorfinnur var ráðinn upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins eftir bankahrunið í október og hóf þegar störf. Upphaflega var gert ráð fyrir að Þorfinnur myndi starfa til áramóta en ráðningatími hans var þó framlengdur til 1. maí og engu breytti þó að ný ríkisstjórn, og nýr ráðherra, tæki við störfum þann 1. febrúar s.l.

Nú standa yfir stjórnvarmyndunarviðræður milli ríkisstjórnarflokkanna og óljóst hver verður viðskiptaráðherra í nýrri ríkisstjórn. Gylfi Magnússon gegnir starfinu nú en Þorfinnur segir að Gylfi hafi ekki viljað ráða nýja starfsmenn ekki vitandi hvort hann situr áfram eða ekki.

Þorfinnur stefnir sjálfur að því að fara erlendis seinna í sumar en segir það undir nýjum ráðherra, hver sem það verður, komið að ráða nýjan upplýsingafulltrúa. Hann sé þó tilbúin til að gegna starfinu áfram í 1-2 mánuði eða þangað til hann fer erlendis.

Þá herma heimildir Viðskiptablaðsins að Helga Valfells, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra hafi einnig þegar látið af störfum og hafið störf hjá Nýsköpunarsjóð. Þannig mun ráðning Helgu aðeins hafa verið tímabundin og þegar frágengið að hún færi til starfa hjá Nýsköpunarsjóð í vor þegar hún var ráðin sem aðstoðarmaður ráðherra.