Þorfinnur Ómarsson hefur verið ráðinn ritstjóri Eyjunnar og tekur við starfinu af Guðmundi Magnússyni sem hefur óskað eftir því að láta af störfum. Guðmundur hyggst, samkvæmt tilkynningu á vef Eyjunnar, sinna bókarskrifum og tengdum verkefnum á næstunni.

Í tilkynningunni kemur fram að Þorfinnur hafi um tveggja áratuga reynslu af fjölmiðlastörfum og stjórnun. Á yngri árum bjó Þorfinnur í Frakklandi og nam þar fjölmiðlafræði og alþjóðasamskipti, ásamt því að vera fréttaritari fyrir Ríkisútvarpið. Hann hefur stýrt fjölda sjónvarps- og útvarpsþátta, m.a. Dagsljósi Sjónvarpsins, Íslandi í dag á Stöð 2, Vikulokunum á Rás 1, og verið fréttamaður á ýmsum ljósvakamiðlum og dagblöðum.

Þorfinnur var framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs og Kvikmyndamiðstöðvar Íslands um sjö ára skeið, 1996 til 2003, og verkefnastjóri fjölmiðlanáms Háskóla Íslands 2003 til 2005. Þá var hann um skeið framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækis í kvikmyndagerð og viðburðastjórnun. Árin 2006 og 2007 var Þorfinnur talsmaður fjölþjóðlegrar eftirlitssveitar með vopnahléi á Sri Lanka.

Nú síðast starfaði Þorfinnur sem upplýsingafulltrúi viðskiptaráðuneytisins, frá október 2008 til apríl 2009. Þannig var hann upplýsingafulltrúi tveggja viðskiptaráðherra, þeirra Björgvins G. Sigurðssonar og Gylfa Magnússonar.

Þorfinnur lauk nú í vor sínu öðru mastersprófi, að þessu sinni í alþjóðaviðskiptum við Háskólann í Reykjavík og UCES-háskóla í Buenos Aires, Argentínu.