Þorgeir Pálsson forstjóri Flugstoða tekur við stöðu prófessors í flugleiðsögutækni við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, þegar hann lætur af starfi forstjóra Flugstoða í lok apríl. Hann verður jafnframt starfsmaður Flug-Kef ohf., hins nýja sameinaða fyrirtækis, sem tekur við starfsemi Flugstoða og Keflavíkurflugvallar. Mun hann sinna rannsóknarstörfum og vera stjórn hins nýja sameinaða fyrirtækis til ráðgjafar. Gerður hefur verið samstarfssamningur milli Háskólans í Reykjavík og Flugstoða þar að lútandi segir í tilkynningu.

Flugstoðir hafa á undanförnum árum tekist á hendur mörg rannsóknar- og þróunarverkefni tengd þjónustunni við alþjóðlegt flug á Norður-Atlantshafi m.a. á vegum SESAR áætlunar Evrópusambandsins. Þessi samstarfssamningur er skref í þá átt að tengja starfsemi fyrirtækisins betur við háskólaumhverfið, en gott samstarf hefur verið við Háskóla Íslands á þessu sviði um margra ára skeið.

Þorgeir varð flugmálastjóri árið 1992. Hann hafði áður gegnt stöðu prófessors í kerfisverkfræði við Háskóla Íslands og stofnaði kerfisverkfræðistofu Verkfræðistofnunar HÍ, sem m.a. vann að þróunarverkefnum á sviði flugstjórnar fyrir Flugmálastjórn Íslands. Þessi þróunarvinna varð grunnurinn að stofnun þróunarfyrirtækisins TERN Systems (Flugkerfi) árið 1997, sem er í eigu Flugstoða og Háskóla Íslands. Þegar Flugmálastjórn var skipt upp árið 2007 lét Þorgeir af starfi flugmálastjóra en tók við stöðu forstjóra Flugstoða.

Eins og kunnugt er munu Flugstoðir ohf. og Keflavíkurflugvöllur ohf. renna inn í hið nýja félag, Flug-Kef ohf., í lok apríl.