Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst vona að Seðlabankinn lækki vexti fyrr en síðar. „Ég held að það sé lykilatriði," segir hún í helgarviðtali Viðskiptablaðsins. Hún segir að háir vextir megi ekki stuðla að því að hér lamist allt.

„Það er auðvitað mikilvægt að ná tökum á verðbólgunni, allir eru sammála því, en innan viðskiptalífsins, atvinnulífsins og launþegahreyfingarinnar er líka bent á að fyrirtækin geti ekki borið þessa háu vexti. Ekkert fyrirtæki getur rekið sig með yfir 20% vöxtum. Ekkert fyrirtæki getur gert það," segir hún.

Þorgerður Katrín segir að það sé umhugsunarefni hvort breyta hefði átt lögum um Seðlabankann í vor og veita honum aukið svigrúm til athafna, til að ná öðrum markmiðum en eingöngu „þessa harðsoðna verðbólgumarkmiði," eins og hún orðar það. Þá segir hún mikilvægt að strax verði farið gaumgæfilega yfir peningamálastefnuna.

Fleiri en eitt lán

Þorgerður Katrín segir aðspurð um lán ríkissjóðs til að auka gjaldeyrisforða Seðlabankans að það sé vissulega rétt að það hafi tekið langan tíma. „Ég held hins vegar að menn séu að vanda sig og hugsanlega að fara nýjar leiðir sem ekki er hægt að tilgreina nánar. Þá á ég við að þetta er ekki eitt stórt lán eins og margir héldu í byrjun."

Þegar Þorgerður Katrín er spurð hvort Evrópuumræðan sé að breytast innan Sjálfstæðisflokksins svarar hún því til að umræðan sé að aukast. Hún hafi þó verið mikil hingað til. Þá segir hún aðspurð að umræðan um Evrópupólitíkina eigi eftir að verða fyrirferðarmikil á næsta landsfundi flokksins.

Hún leggur áherslu á að aðild að ESB sé spurning um kalt hagsmunamat og að nú sé okkar hagsmunum betur borgið utan sambandsins. Á hinn bóginn þurfi að halda möguleikunum opnum og vinna að ákveðnum þáttum svo hægt verði að taka ákvarðanir hvenær sem er á næsta kjörtímabili.

Einkavæðing Íslandspósts verði skoðuð

Þorgerður Katrín segir að stjórnarsamstarfið hafi gengið vel og að mikið traust ríki milli formanna flokkanna. „Auðvitað hefði maður þó viljað sjá festu og meiri aga í ákveðnum samskiptum. Það er nýtt að þingmenn annars stjórnarflokksins séu af meiri ákveðni að gagnrýna ráðherra hins flokksins." Á því verði að taka.

Þegar hún er spurð út í fylgi Sjálfstæðisflokksins, sem er um fjórum prósentustigum minna en kjörfylgið, segir hún að málefni Reykjavíkurborgar hafi eyðilagt mjög fyrir flokknum. Það hafi verið erfitt að sjá mál þar dragast á langinn. Hún sé þó sannfærð um að bjartari tímar séu framundan með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í broddi fylkingar í Reykjavík.

Þá segir Þorgerður Katrín í viðtalinu, aðspurð um einkavæðingu, að skoða eigi vel Íslandspóst. Landsvirkjun eigi þó ekki að selja á kjörtímabilinu.