Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, styður það að erlendir sérfræðingar rannsaki orsakir og aðdraganda hruns íslenska fjármálakerfisins.

Hún segir greinilegt að stjórnendur Fjármáleftrlits, Seðlabanka og margir fleiri hafi gert mistök.

Hún  undrast til dæmis að engin viðvörunarljós hafi kviknað þegar flugfélagið Sterling, sem nú er gjaldþrota, var aftur og aftur selt á milli manna.

„Af hverju staldraði enginn við þetta? Af hverju fór enginn yfir þessi mál? Þarna var engin verðmætasköpun í gangi. Þarna var bara verið að færa fjármuni úr einum vasa í annan," segir Þorgerður í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Þorgerður segir:

„Það er greinilegt að það hafa orðið mistök hjá stjórn og stjórnendum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Og hið sama á við um forsvarsmenn fyrirtækja, sem hafa margir gert mörg og óskiljanleg mistök. Frelsið færði mikla ábyrgð yfir á fyrirtækin og í sumum tilvikum hefur sú ábyrgð ekki verið öxluð með nægum hætti. Í [fyrra]dag var til dæmis flugfélagið Sterling að fara á hausinn. Það hefur verið selt á milli manna einum sex eða sjö sinnum og alltaf hafa meiri og meiri fjármunir verið í húfi?

Það er eðlilegt að spurt sé í dag: Af hverju staldraði enginn við þetta? Af hverju fór enginn yfir þessi mál? Þarna var engin verðmætasköpun í gangi. Þarna var bara verið að færa fjármuni úr einum vasa í annan Það er víða sem viðvörunarljósin hefðu átt að kvikna – líka hjá fjölmiðlunum. Þeir verða að spyrja sig hvort þeir hafi gætt þess aðhaldshlutverks sem þeir áttu að sinna. Það þurfa margir að líta í eigin barm. Við eigum að þora að takast á við það verkefni og gera það án meinfýsni og illdeilna."

Þorgerður Katrín verst tilraunum til þess að fá nánara svar um í hverju mistök Seðlabanka og Fjármálaeftirlits voru fólgin og hvort þjóðnýting Glitnis hafi hrundið hruninu af stað. Hún leggur áherslu á að menn hafi tekið þær ákvarðanir sem þeir töldu réttastar í góðri trú.

Hún segist styðja eindregið yfirlýsingar forsætisráðherra um að gera eigi „Hvítbók" um aðdraganda og orsakir hrunsins.

„Ég styð það að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að draga saman þessa hluti og skoða þá í heildarsamhengi," segir hún.

„En þá er ég ekki að tala um að við eigum að komast að þeirri niðurstöðu að við þurfum að hverfa hér aftur til ársins 1991 og aftur fyrir tíma EES-samningsins."

Nánar er rætt við Þorgerði Katrínu í helgarblaði Viðskiptablaðsins.