Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir athyglisvert hve langan tíma taki að mynda nýja ríkisstjórn.

„Það er ljóst að Framsókn er að átta sig á því að það átti að nota hana sem hækju í hundrað daga en henda henni að kosningum loknum. Enda er það yfirlýstur vilji Vinstri grænna að fara í vinstri stjórn eftir kosningar - og þar er ekki litið til Framsóknar,“ segir hún í samtali við Viðskiptablaðið.

Hún segir að það skipti miklu máli að ný stjórn drífi sig að verkinu. Það megi ekki eyða svona miklum tíma í viðræðurnar. „Við sjálfstæðismenn munum styðja þau til allra góðra verka svo sem að styðja við áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til að lækka vexti, og gera umhverfið hagfelldara.“

Hún segir að miðað við þær fregnir sem borist hafi af málefnasamningi væntanlegrar ríkisstjórnar lykti samningurinn af kosningaplaggi. Flokkarnir ætli greinilega að nota dagana í ríkisstjórn í kosningabaráttuna. „Það var einmitt það sem maður var smeykur við - að þegar boðað yrði til  kosninga færi þessu leikur af stað, hvort sem það var hjá þessari stjórn eða annarri,“ segir hún og bætir við:

„Ég vona hins vegar að þau lufsist til að koma sér saman um þetta og drífa sig að verkinu.“