Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði á Alþingi rétt í þessu að hún hefði engin áhrif haft á þá ákvörðun Seðlabankans að veita Kaupþingi lán upp á 500 milljónir evra.

Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar, þingmanns Frjálslynda flokksins.

„[Lánið] var veitt af Seðlabankanum sem er mjög sjálfstæð stjórn," sagði Þorgerður Katrín og bætti við: „Þar hef ég engin áhrif." Þá sagði hún að ákvarðanir um yfirtöku viðskiptabankana hefðu verið teknar af Fjármálaeftirlitinu. Það væri líka algjörlega sjálfstæð stofnun á grundvelli neyðarlaganna.

„Ákvarðanir þessar voru því teknar af þartilbærum stjórnvöldum og beindust fyrst og fremst að því, sem allir vita sem hafa fylgst með, að verja almannahagsmuni. Að sjálfsögðu var undirbúningur neyðarlaganna og setning þeirra rædd í ríkisstjórn enda beinlínis gert ráð fyrir því í starfsreglum ríkisráðsins að á ráðherrafundum séu tekin til umfjöllunar lagafrumvörp ráðherra. Almenn samstaða var síðan um setningu neyðarlaganna," sagði hún meðal annars í svari sínu við fyrirspurn Kristins.

Þingmaðurinn spurði Þorgerði Katrínu hvort hún sem menntamálaráðherra hefði talið sig hafa fullt og óskorað hæfi til þess að koma að yfirtöku ríkisins á viðskiptabönkunum þremur og ákvörðunum er vörðuðu nýju bankana, sérstaklega Kaupþing.

Mikilvægt að ráðherrann skýri frá aðkomu sinni að ákvörðunum um bankana

Kristinn vitnaði í stjórnsýslulög og velti því fyrir sér hvort Þorgerður Katrín hefði verið hæf til að taka ákvarðanir, sérstaklega þær er vörðuðu Kaupþing í ljósi þess að hún hefði tengst Kaupþingi fjárhagslega.

Kristinn tók fram að Þorgerður Katrín hefði ekki greint frá aðkomu sinni að ákvörðunum um bankana. það væri hins vegar knýjandi svo hægt yrði að leggja mat á aðkomu hennar að málinu.

Þorgerður Katrín sagði í upphafi máls síns að menntamálaráðherra færi ekki með málefni banka og hefði því ekki komið að ákvörðunum um stofnun eða rekstur hinna nýju banka. Spurningin um hæfi menntamálaráðherra í því samhengi ætti því ekki við.

Hvað varðaði setu hennar í ríkisstjórn þá sagði Þorgerður Katrín að ríkisstjórnin tæki ekki stjórnvaldsákvarðanir. Ráðherrafundur væri fyrst og fremst pólitískur samráðsvettvangur ráðherra. „Reglur um hæfi mitt sem menntamálaráðherra, hvort sem þær eru skráðar eða óskráðar, eiga hreinlega ekki við varðandi þær ákvarðanir sem vísað er til í fyrirspurninni."