Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætlar að hætta sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins og taka sér frí frá þingstörfum.

Þetta tilkynnti hún samflokksmönnum á flokksráðs-, formanna- og frambjóðendafundi Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í Stapa í Reykjanesbæ í dag. Þá sagði Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, að nauðsynlegt væri að halda landsfund sem fyrst.

Sér eftir ummælum sínum

Þorgerður sagði að hún taki þessa ákvörðun eftir að hafa íhugað stöðu sína. Það væri best fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hún myndi víkja við þessar aðstæður. Hún viðurkenndi að hennar helstu mistök væru meðvirkni með því sem hér var í gangi og þátttaka hennar í því. Þá sagði hún að ummælin sín að starfsmenn Merril Lynch  þyrftu endurmenntun þegar þeir settu fram gagnrýni á íslenskt efnahagslíf ámælisverð. Hún sæi eftir þeim.

Mikill titringur hefur verið innan Sjálfstæðisflokksin eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út. Í gær tilkynnti Illugi Gunnarsson að hann hygðist víkja af Alþingi á meðan mál peningamarkaðssjóðs Glitnis væri til skoðunar hjá sérstökum saksóknara. Rannsóknarnefndin var með ábendingu um það sem betur hefði mátt fara í rekstri peningamarkaðssjóða bankanna sem saksóknari þarf að taka afstöðu til hvort tilefni sé að rannsaka. Illugi var í stjórn Sjóðs 9.