Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu menntamálaráðherra um að skipa starfshóp til að fara á skömmum tíma yfir alvarlega stöðu á fjölmiðlamarkaði og koma með tillögur til úrbóta.

„Ég óttast sem menntamálaráðherra um frjálsa fjölmiðlun í landinu," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið, í fyrradag.

Auglýsingamarkaður hefur nær algjörlega stöðvast í kjölfar bankahrunsins hér á landi. Einnig veldur hrun krónunnar miklum búsifjum hjá þeim fjölmiðlum sem sem kaupa efni frá útlöndum. Vaxandi fjármagnskostnaður er öllum rekstri fjötur um fót.

Jafnvel í góðærinu og mestu þenslunni var rekstur fjölmiðlanna í járnum þegar best lét. Við þær aðstæður sem nú eru uppi er reksturinn mjög erfiður, eins og fram hefur komið í uppsögnum allra starfsmanna Skjásins og fjöldauppsögnum hjá 365 og Árvakri.

Vegna þessarar stöðu fór Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, með minnisblað um stöðu fjölmiðla á ríkisstjórnarfund í morgun og fékk þar samþykkt skipan lítils starfshóps, sem að sögn Steingríms Sigurgeirssonar, aðstoðarmanns Þorgerðar Katrínar, mun reyna að vinna eins hratt og kostur er, fara yfir rekstrarumhverfi opinberra sem einkarekinna fjölmiðla og koma með tillögur eins og efni standa til.

Steingrímur sagði að í því efni væri allt uppi á borðinu og um það hvort hópurinn mundi gera tillögur um að þrengja svigrúm Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði sagði hann að ráðherrann hefði áður lýst yfir vilja sínum til þess að draga úr þátttöku RÚV á þeim markaði.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er þess vænst að eftir 1-2 vikur hafi starfshópurinn lokið störfum og skilað tillögum sínum.

Gert er ráð fyrir að í þeim tillögum verði Ríkisútvarpinu settar skorður um þátttöku á auglýsinga- og kostunarmarkaði en að stjórnendum stofnunarinnar verði síðan falið að ákveða til hvaða niðurskurðar þeir grípa í framhaldinu.

Vænta má þess að í framhaldinu komi til frekari niðurskurðar hjá RÚV, líkt og öðrum fjölmiðlum í landinu.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins ræddi stöðuna á fjölmiðlamarkaði við Þorgerði Katrínu á miðvikudag en þá vildi hún ekki upplýsa hvaða tillögur hún hefði í undirbúningi. Hún dró hins vegar ekki dul á áhyggjur sínar af stöðu fjölmiðla vegna efnahagsástandsins.

„Ég óttast sem menntamálaráðherra um frjálsa fjölmiðlun í landinu," sagði ráðherrann.

„Við erum að sjá blöðin safnast á sömu hendi og mikla erfiðleika hjá frjálsu fjölmiðlunum, sem eru að horfast í augu við nýjan veruleika og grípa til róttækra leiða."Þorgerður sagðist ekki hafa farið leynt með þá skoðun sína að takmarka þurfi þátttöku ríkisins á auglýsingamarkaði en sagði óvíst hvernig það mundi duga við þær aðstæður sem nú eru uppi. "Menn gætu staðið frammi fyrir því að þurfa að taka róttækar ákvarðanir," sagði hún.