„Steingrímur Joð verður hinn nýi skattmann og hefur skikkjan þegar verið send með hraðpósti frá Bessastöðu," sagði Þorgerður K. Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sem hún flutti á landsfundi rétt í þessu.

Hún sagði að nú þegar hefði hið rétta andlit vinstri flokkanna komið í ljós. Þeir væru sammála um skattahækkanir og þær væru víðtækar.

Þeir væru hins vegar ósammála um Evrópusambandið og virkjanir. „Það kemur kannski ekki mikið á óvart," sagði hún „en það hefur komið í hlut okkar sjálfstæðismanna í þinginu að tryggja framgang atvinnumála eins og vegna Helguvíkur."

Þorgerður Katrín sagði að þjóðin ætti ekki skilið nýja skatta. „Hún á að fá að velja sjálf um hvort við sækjum um aðild að Evrópusambandinu eða ekki."