Þorgerður K. Gunnarsdóttir menntamálaráðherra leysir að öllu óbreyttu Geir H. Haarde forsætisráðherra af þegar hann fer í aðgerð erlendis um mánaðamótin.

Eins og fram kom í yfirlýsingu Geirs fyrr í dag hefur hann greinst með illkynja æxli í vélinda og þarf því að fara utan í aðgerð.

Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, segir að samkvæmt venju verði Þorgerður starfandi forsætisráðherra í fjarveru Geirs.

Ekki liggur fyrir hve lengi Geir verður frá vegna aðgerðarinnar. Bolli Þór talaði um einhverja daga í því sambandi en hugsanlega lengur.