Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem um helgina sagði af sér sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sendi Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, tölvupóst að kvöld 1. október 2008 þar sem hún lýsti því yfir að reka þyrfti Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra.

Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fjallað er um yfirtökuna á Glitni um mánaðarmótin september/október 2008.

Eins og áður hefur komið fram kom Davíð á fund ríkisstjórnar þann 30. september 2008. Fundur ríkisstjórnarinnar var nokkuð langt kominn þegar Davíð hafði samband við Geir og bað um að fá að koma á fundinn.

Af gögnum sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur fengið aðgang að, þ.m.t. tölvusamskiptum ráðherra, er ljóst að strax í kjölfar komu Davíðs á ríkisstjórnarfundinn og ummæla hans þar um þjóðstjórn kom fram í röðum ráðherra sú afstaða að Davíð ætti að víkja úr starfi seðlabankastjóra.

Þessi afstaða kom fram af hálfu ráðherra í báðum stjórnarflokkunum og þeir komu henni á framfæri við forsætisráðherra í kjölfar fundarins. Þannig má nefna að Þorgerður Katrín sendi Geir tölvubréf að kvöldi 1. október 2008 þar sem hún lýsti þeirri afstöðu sinni að það gengi ekki að embættismaður gengi inn á ríkisstjórnarfund og segði að önnur stjórn ætti að taka við og bætti við: "Slíkur maður þarf að víkja."

Við skýrslutöku lýsti Davíð Oddsson aðkomu sinni að fundinum með eftirfarandi orðum:

„Og svo fór ég inn á fundinn og hérna forsætisráðherra bauð mig velkominn á fundinn og hann sagði að það væri óþarfi að tala mikið um Glitnismálið eins og það væri, því hann hafði notað tækifærið áður en ég [kom], hann vildi að ég mundi koma til að aðeins að reifa það mál og gaf mér svo orðið og þá sagðist ég eiga það erindi að ég teldi að það væru verulegar líkur á því að allt íslenska bankakerfið yrði hrunið á næstu tíu til fimmtán dögum."

Í skýrslunni er haft eftir Davíð að hann hefði látið þau orð falla að ef einhverju sinni hefði skapast þörf fyrir sérstaka þjóðstjórn þá væri það nú.

Aðspurður hvort orð Davíðs hefðu einnig leitt til viðbragða af hálfu ráðherra Sjálfstæðisflokksins svaraði Geir við skýrslutöku rannsóknarnefndar: „Já, já, sérstaklega menntamálaráðherrann var óánægð með þetta, en ég held – það var alveg óþarfi að skilja þetta eitthvað öðruvísi en þetta var meint. Og ég tel að þetta hafi einfaldlega verið meint svona, hann vissi vel að það var ekki hans hlutverk að gera þetta og það var það sem menntamálaráðherrann sagði nokkrum dögum seinna þegar þetta komst í hámæli því að þetta komst í hámæli."