Origo og Fjármálaeftirlitið hafa gert með sér sátt um að fyrirtækið greiði 2,2 milljónir króna í sekt vegna brots á laga um verðbréfaviðskipti. Þá hefur Origo einnig skuldbundið sig til þess að grípa til ráðstafana til að stuðla að því að sambærileg atvik eigi sér ekki stað aftur.

Málið snýr að birtingu innherjaupplýsinga eða öllu heldur því að Origo birti ekki nægilega fljótt upplýsingar líkt en það þótti ekki í samræmi við lög. Þann 2. október var rætt á stjórnarfundi að alþjóðlegum fjárfestingarbanka hefði verið falið að hefja formlegt söluferli á verulegum eignarhlut í Tempo, dótturfélagi Origo en þær upplýsingar voru óumdeildt innherjaupplýsingar.

Stjórnarfundinum lauk klukkan 16:15 þann 2. október en tilkynning um málið var ekki birt fyrr en 09:03 daginn eftir eða þann 3. október. Þannig liðu rúmlega 16 klukkustundir frá því að innherjaupplýsingarnar lágu í síðasta lagi fyrir og þar til Origo birti þær opinberlega.

Fyrirtækið óskaði strax eftir því að ljúka málinu með sátt.