*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 14. október 2021 14:06

Origo fær grænt ljós á Eldhaf

Það hvort sala á vörum frá Apple væri sérstakur markaður var meðal þess sem var til skoðunar í málinu.

Jóhann Óli Eiðsson
Eldhaf hefur sérhæft sig í sölu á Apple vörum.
Aðsend mynd

Ekki var tilefni til íhlutunar í kaup Origo á 70% hlut í versluninni Eldhafi ehf. að mati Samkeppniseftirlitsins. Rannsókn eftirlitsins leiddi í ljós að ekki væru vísbendingar um að markaðsráðandi myndi myndast með samrunanum. Samkeppnisaðilar á markaði viðriðu þó efasemdir þess efnis.

Eftirlitinu var tilkynnt um samrunann í byrjun september. Hið keypta félag sérhæfir sig í sölu á Apple vörum meðan Origo starfar á sviði upplýsingatækni. Í samrunaskrá kom fram að félögin tvö teldu sig starfa að takmörkuðu leyti á sama markaði þar sem markaðir Apple vörur nytu nokkurar sérstöðu. Tæki félagsins innihéldu „lokað vistkerfi“ og að notendur varanna væru mjög hliðhollir vörumerkinu. Því væri Origo í raun ekki að bæta við markaðshlutdeild sína.

Undir meðferð málsins gafst fimmtán hagsmunaaðilum kostur á að koma að athugasemdum við fyrirhugaðan samruna og bárust svör frá átta slíkum. Tvær umsagnir voru reifaðar í ákvörðun eftirlitsins en þar kom fram að þau félög teldu ekki unnt að aðskilja Apple vörur frá öðrum vörum á markaðnum. Heggi nærri því að Origo væri að nálgast markaðsráðandi stöðu.

Einn umsagnaraðili taldi aftur á móti að um tvo aðskilda markaði væri að ræða og að kaupin væru til þess fallin að auka samkeppni á markaði með Apple vörur.

Í niðurstöðu eftirlitsins var litið á niðurstöðu framkvæmdastjórnar ESB í svokölluðu Google Android máli en þar var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að stýrikerfi sem ekki er hægt að öðlast leyfi fyrir, á borð við Apple stýrikerfin, væru á öðrum markaði en stýrikerfi sem selja leyfi til þriðja aðila. Mögulega væri því um sérstakan markað að ræða.

„Þó ber að líta til þess að í því máli var smásala á tölvum og tölvutengdum búnaði ekki til skoðunar. Í ljósi þess að það hefur ekki áhrif á niðurstöðu málsins tekur Samkeppniseftirlitið þó ekki endanlega afstöðu til þess hvort að skilgreina eigi sérstakan markað fyrir Apple vörur. Er þetta með tilliti til þess að markaðshlutdeild samrunaaðila skarast að óverulegu leyti en Origo hefur að mjög takmörkuðu mæli selt Apple vörur,“ segir í ákvörðun eftirlitsins.

Samkvæmt mati eftirlitsins var samanlögð hlutdeild félaganna á markaði með tölvur og tölvutengdan búnað, þá í víðari skilningi, um 20-25%. Ef aðeins væri horft á Apple vörur væri hlutdeildin aftur á móti 0-5%. Önnur félög væru með áþekka hlutdeild á markaðnum í víðari skilningi og meiri hlutdeild hvað Apple varðar. Því var ekki talið tilefni til að aðhafast frekar í málinu.

Stikkorð: Origo