Ekki verður greiddur út arður til hluthafa Origo hf. (áður Nýherji) árið 2018. Þetta var ákveðið á aðalfundi Origo á föstudaginn. Niðurstaðan varðandi arðgreiðslur er sú sama og á aðalfundi fyrir ári en þá var einnig ákveðið að greiða ekki út arð.

Á aðalfundinum fyrir helgi var ákveðið að hækka stjórnarlaun. Mánaðarleg stjórnarlaun formanns hækka um rúm 6% eða úr 540 þúsund krónum í 575 þúsund. Stjórnarlaun fyrir meðstjórnendur og varamann hækka um 44% eða úr 180 þúsund í 260 þúsund.

Sjálfkjörið var í stjórn Origo hf. á aðalfundinum. Emilía Þórðardóttir, Guðmundur Jóhann Jónsson, Hildur Dungal, Ívar Kristjánsson og Loftur Bjarni Gíslason voru sjálfkjörin. Þar að auki var  Hjalti Þórarinsson sjálfkjörinn sem varamaður.

Á fundinum var einnig samþykkt að heimila stjórn Origo að kaupa hlutabréf í félaginu.

Aðalfundur félagsins samþykkti einnig að heimila stjórn félagsins að kaupa í eitt skipti eða oftar á næstu 18 mánuðum hlutabréf í félaginu þannig að það ásamt dótturfélögum þess eigi, að öðrum lagaskilyrðum uppfylltum, allt að 10% af hlutafé þess, þ.e. að hámarki kr. 45.873.998 að nafnverði,"segir í tilkynningu.  „Endurgjald fyrir keypta hluti skal ekki vera á hærra verði en nemur verði síðustu óháðu viðskipta eða hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði í þeim viðskiptakerfum þar sem viðskipti með hlutabréfin fara fram, hvort sem er hærra. Slík kaup eru þó heimil ef þau eru gerð af viðskiptavaka skv. 116. gr. laga um verðbréfaviðskipti eða á grundvelli 1. tölul . 3. mgr. 115. gr. og 2. mgr. 119. gr. laga um verðbréfaviðskipti og reglugerða sem settar eru á grundvelli 118. og 131. gr. sömu laga."

Lesa má ársskýrslu Origo hér .