*

föstudagur, 18. október 2019
Innlent 7. maí 2019 18:54

Origo greiðir milljarð í arð

Hagnaður Origo hf. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 213 milljónum króna.

Ritstjórn
Finnur Oddsson er forstjóri Origo.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Origo hf. á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam 213 milljónum króna. Á sama tímabili í fyrra var afkoman neikvæð um 26 milljónir króna. Á aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða einn milljarð króna í arð til hluthafa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

EBIDTA ársfjórðungsins nú var 237 milljónir en var tæpar 102 milljónir fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Sala á vöru og þjónustu dregst saman milli ára um rúmar 220 milljónir og var nú 3.553 milljónir króna. Tekið er fram í uppgjörinu að Tempo ehf. sé ekki lengur hluti af samstæðureikningi og að Tekjuvöxtur án Tempo hafi verið um sjö prósent miðað við sama tímabil í fyrra.

Vegna innleiðingu IFRS 16 reikningsskilastaðalsins lækkar eiginfjárhlutfall um fjögur prósentustig samanborið við stöðuna í ársbyrjun og er það nú 62,1 prósent. Hefði ekki komið til breytingarinnar væri hlutfallið yfir sjötíu prósent að því er fram kemur í tilkynningunni.

„Rekstur Origo á fyrsta ársfjórðungi gekk ágætlega miðað við aðstæður. Afkoma var betri en verið hefur mörg undanfarin ár. Tekjur jukust töluvert, að teknu tilliti til Tempo, og EBITDA batnaði mikið og nam tæplega 7% af veltu samanborið við tæp 3% í fyrra. Þessi niðurstaða er annars vegar til komin vegna styrkingar rekstrar á milli ára og hins vegar vegna breyttra aðferða við reikningsskil sem hafa áhrif á EBITDA,“ er haft eftir Finni Oddssyni forstjóra Origo.

Stikkorð: uppgjör Origo