Alls nam veltan í Kauphöllinni 3,4 milljörðum króna í dag, á fyrsta viðskiptadegi frá jólum. Origo hækkaði mest af öllum félögum íslenska hlutabréfamarkaðarins, eða um 3% í 266 milljóna veltu.

Hlutabréfaverð Origo hefur hækkað úr 62 krónum á hlut í 69 krónur á tæpri viku. Tempo, hlutdeildarfélag Origo, tilkynnti um kaup á bandaríska hugbúnaðarfyrirtækinu ALM Works í síðustu viku.

Sjá einnig: Tempo kaupir ALM Works

Sýn hækkaði næst mest allra fyrirtækja eða um 2,4% og stendur hlutabréfaverð fjarskiptafélagsins nú í 64,5 krónum. Arion hækkaði einnig um 1,1% í 620 milljóna veltu en Íslandsbanki lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 1%.

Mesta veltan var með hlutabréf Marel sem hækkaði um tæplega eitt prósent í 939 milljóna veltu. Hlutabréfaverð Marels hefur hækkað um 6% á einni viku og stendur nú í 872 krónum á hlut.