*

þriðjudagur, 22. júní 2021
Innlent 22. október 2020 17:16

Origo hækkaði um 4,1% eftir uppgjör

Marel og Úrvalsvísitalan halda áfram að ná nýjum sögulegum hæðum, og Eimskip heldur áfram að hækka í virði.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Gengi bréfa Origo hækkaði mest á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag, eða um 4,1%, upp í 34,30 krónur í 290 milljóna króna viðskiptum. Eins og Viðskiptablaðið greindi frá hagnaðist félagið um 90 milljónir á þriðja ársfjórðungi svo hagnaður félagsins fyrstu níu mánuði ársins nam 461 milljón króna.

Næst mest var hækkun bréfa Eimskipafélagsins, eða um 3,30%, í 62 milljóna króna viðskiptum og hækkaði gengi bréfa félagsins í 188 krónur. Viðskiptablaðið hefur eftir Þorsteini Má Baldvinssyni forstjóra Samherja sem gert hefur 22 milljarða króna yfirtökutilboð í félagið að yfirtökugengið sem félagið bjóði séu 175 krónur.

Þriðja mesta hækkunin var svo á gengi bréfa Iceland Seafood, eða um 2,07%, upp í 9,37 krónur, í 76 milljóna króna viðskiptum.

Tryggingafélög með mestu viðskiptin á eftir Marel

Úrvalsvísitalan heldur áfram að ná nýjum hæðum, en hún hækkaði um 0,14%, upp í 2.282,50 stig í 2,9 milljarða heildarviðskiptum á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag. Mestu viðskiptin voru með bréf Marel, eða fyrir 782,1 milljón króna, en bréf félagsins héldu áfram að ná nýjum hæðum eftir 0,13% hækkun í dag og er lokagengi bréfa félagsins nú 751 króna.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf VÍS, eða fyrir 412,3 milljónir króna, en þennan síðasta viðskiptadag áður en félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt hækkuðu bréf þess um 0,46%, upp í 12,03 krónur. Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Sjóvá, eða fyrir 335,5 milljónir króna, en þau hækkuðu um 1,56%, upp í 22,85 krónur.

Fasteignafélög leiddu lækkanir

Einungis fjögur félög lækkuðu í verði í viðskiptum dagsins, og tvö félög, Brim og TM stóðu í stað, önnur hækkuðu í verði.

Mest lækkun var á bréfum Reita, eða um 0,72%, niður í 48,2 krónur, í 64 milljóna króna viðskiptum, en Viðskiptablaðið sagði frá því í morgun að félagið hefði lokið fimm milljarða króna hlutafjárútboði með ríflega tvöfaldri eftirspurn. Næst mest var lækkun bréfa annars fasteignafélags, Regins, eða um 0,45%, niður í 16,45 krónur, í 21 milljóna króna viðskiptum.

Íslenska krónan styrktist gagnvart breska pundinu og sænsku krónunni, en veiktist gagnvart öðrum helstu viðskiptamyntum sínum. Veiking sænsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku nam 0,14%, og fæst hún nú á 15,789 krónur, en veiking breska pundsins nam 0,04 og fæst það nú á 181,38 krónur.

Evran styrktist gagnvart íslensku krónunni um 0,12%, upp í 163,86 krónur, Bandaríkjadalur styrktist svo um 0,56%, upp í 138,58 krónur og japanska jenið styrktist um 0,22%, upp í 1,3218 krónur.

Stikkorð: Marel Eimskip Úrvalsvísitalan Nasdaq kauphöll Origo