Upplýsingatæknifélagið Origo hækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni í dag en hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 4.58%. Veltan nam 173 milljónum króna og viðskiptin voru 22 talsins. Gengi félagsins stendur nú í 68,5 krónum og hefur hækkað um 70% frá áramótum. Í gærkvöldi voru kaup Tempo, hlutdeildarfélags Origo, á kanadíska félaginu Roadmunk Inc tilkynnt. Viðskiptablaðið greindi frá kaupunum fyrr í dag.

Auk þess hækkuðu bréf Símans og Síldarvinnslunnar um meira en eitt prósent. Hlutabréf í Sýn hækkuðu einnig um 0.81% í 421 milljón króna veltu. Samkeppniseftirlitið samþykkti í gær sölu Sýnar á óvirkum farsímainnviðum til Digital Bridge Group en Sýn hækkaði um 7.9% í viðskiptum gærdagsins.

Á hinum enda rófsins var Iceland Seafood en gengi félagsins lækkaði um 1.32% í óverulegum viðskiptum upp á einungis 2 milljónir króna.

Mesta veltan var í viðskiptum með hlutabréf í Arion eða um 1,1 milljarða króna en gengi félagsins lækkaði um 0.53%. Næst mesta veltan var í viðskiptum með bréfum í Marel, upphæð sem nemur um 850 milljónum króna og lækkuðu bréf í félaginu um 0.71%.

Heildarvelta á aðalmarkaði nam 4,8 milljörðum í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0.53% og stóð lokagildi hennar í 3.314,91.