*

laugardagur, 16. október 2021
Innlent 27. ágúst 2021 09:14

Origo hagnaðist um 247 milljónir

Hagnaður upplýsingatæknifyrirtækisins nam 247 milljónum króna á fyrri hluta árs. 5,2% tekjuvöxtur á tímabilinu.

Ritstjórn
Jón Björnsson, forstjóri Origo.
Eyþór Árnason

Heildarhagnaður Origo á öðrum ársfjórðungi nam 84 milljónum króna og samtals 247 milljónum króna á fyrri helmingi árs. Sala á vöru og þjónustu nam 4,4 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi 2021 og var um að ræða 13,6% tekjuvöxt frá sama tímabili í fyrra. Sala á vöru og þjónustu nam alls 8,6 milljörðum króna á fyrri árshelmingi og jukust tekjur um 5,2% í samanburði við fyrri hluta árs 2020.

Framlegð nam 1,1 milljarði króna (25,3%) á öðrum ársfjórðungi 2021 og 2,2 milljörðum króna (25,7%) á fyrri árshelmingi 2021. EBITDA nam 357 milljónum króna (8,1%) á öðrum ársfjórðungi 2021 og 658 milljónum króna (7,6%) á fyrri árshelmingi, en til samanburðar nam EBITDA 123 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2020 (3,2%) og 360 milljónum króna (4,4%) á fyrri helming árs í fyrra. EBIT nam 158 milljónum króna (3,65%) á öðrum ársfjórðungi og 266 milljónum króna (3,1%) á fyrri árshelmingi. Til samanburðar nam EBIT -45 milljónum króna (-1,1%) á öðrum fjórðungi í fyrra og 23 milljónum króna (0,3%) á fyrri hluta árs. 

Eiginfjárhlutfall að loknum fyrri hluta árs var 57,4% en í lok árs 2020 var hlutfallið 56,5%. Þá var veltufjárhlutfall 1,22 en var 1,27 í lok árs 2020.

Jón Björnsson, forstjóri Origo:

„Góður árangur náðist hjá Origo á öðrum ársfjórðungi 2021. Samanburður við fyrra ár er vissulega erfiður sökum breytinga í efnahagslífinu, sem urðu á sama fjórðungi síðasta árs. Fjórðungurinn er 13,6% yfir veltu síðasta árs. Veltuaukningu má að mestu leyti rekja til sölu hjá notendabúnaði og áframhaldandi aukningu hjá hugbúnaðarstarfsemi félagsins. Á sama tíma dróst Innviðasala áfram saman. Rekstrarafkoma er góð á fjórðungnum en félagið skilar 8,1% EBITDA sem eru í takt við síðustu fjórðunga og umtalsverður bati frá síðasta ári sem skilar bestu afkomu á 2F ef litið er til síðustu þriggja ára. Allir starfsþættir skila betri rekstrarárangri frá fyrra ári. Sá árangur byggir að mestu leyti á tekjusamsetningu og lægri rekstrarkostnaði. Þá er ánægjulegt að sjá sterkan fjórðung hjá Tempo í kjölfar metfjórðungs, sem að miklu leyti var drifin áfram af skilamálabreytingum Atlassian markaðstorgsins.

Við tókum fyrstu skref í að skerpa samfélagslegar áherslur Origo seinnihluta síðasta árs og ljóst að félagið getur gefið mikið af sér þegar kemur að jafnrétti kynjanna, eflingu nýsköpunar, umhverfismálum, heilsu og vellíðan starfsfólks. Afurðin af þessari umræðu er einnig sú að setja tækni og samfélag í forgrunn stefnu félagsins. Félagið hefur sett í gang fjölda verkefna sem hafa það að markmiði að bæta samfélagið sem það starfar í. Við höfum verið leiðandi þegar kemur að fjarvinnu, tekið ákveðið á málum er lúta að kolefnisspori og höfum hafið samstarf við Klappir um að  bjóða viðskiptavinum Origo innan tíðar að fylgjast með vistspori fyrirtækisins í rauntíma. Í september mun félagið jafnframt kynna til leiks nýjan hugbúnað (Justly Pay) sem mun hjálpa minni og meðalstórum fyrirtækjum að komast í gegnum jafnlaunavottun með stafrænum hætti. Fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 90 starfsmenn þurfa að vera kominn með vottun fyrir lok þessa árs og öll fyrirtæki með fleiri starfsmenn en 25 þurfa að hafa lokið þessu á næsta ári. Það er von mín að Origo geti orðið leiðandi í þróun lausna, sem bæta samfélagið. Þar af leiðandi er lykilatriði að við getum búið til umhverfi þar sem við getum aukið nýsköpun í félaginu. Við munum einsetja okkur að einfalda umgjörð og fjárfesta í starfsfólki og tækniumhverfi sem þarf til þess.

Áfram er góð eftirspurn eftir lausnum og áherslum í notendabúnaði, sem skilar 36% aukningu á fjórðungnum ofan á góða aukningu síðasta árs, þrátt fyrir töluverðar áskoranir á innkaupahliðinni. Einingin hefur tekið miklum breytingum á s.l. ári og uppskeran nú er frábær. Netverslun félagsins gengur sérstaklega vel og hefur veltan tvöfaldast það sem af er ári. Við ætlum að styrkja netverslunina enn frekar. Við ætlum að bæta viðmótið, auka upplýsingagjöf og leggja aukna áherslu á græn málefni. Notendalausnir skipa stóran sess í rekstri Origo og hefur félagið fullan hug á að styrkja Notendalausnir enn frekar og gefa einingunni  það rými sem þarf til að vaxa. Aukið og fjölbreytt vöruframboð er hluti af þeirri vegferð og hefur Origo fjárfest í 70% eignarhlut í Eldhafi ehf., sem er innflutningsaðili á Apple vörum. Tilgangur fjárfestingarinnar er að auka breidd í vöruúrvali til að mæta óskum íslenskra fyrirtækja og stofnanna.

Miklar breytingar hafa orðið á upplýsingatækni umhverfi fyrirtækja með aukinni sókn hugbúnaðar í skýið og minni áherslu á eigin gagnaver. Það hefur breytt eðli innviðasölu hjá Origo og eru þær nú töluvert færri en áður en að sama skapi stærri þegar þær koma. Tekjusamdráttur í rekstrarþjónustu er að öllu leyti tilkominn vegna samdráttar innviðasölu en önnur velta einingarinnar hefur aukist m.v. síðasta ár. Þjónustulausnir Origo eru í ákveðnu breytingarferli til styrkingar á vöruframboði og þjónustu. Við höfum tekið fyrstu skrefin í því ferli með mikilli styrkingu á þekkingu og því vöruframboði sem Origo getur nú boðið.

Syndis Öryggislausnir er nú starfrækt sem sjálfstætt félag, með 20 sérfræðinga á sviði UT öryggismála, eftir sameiningu þess við öryggislausnir Origo fyrr á þessu ári. Sterk eining sem býður heildstæða stafræna öryggisþjónustu og ráðgjöf, þróar varnir gegn netárásum og gagna- og auðkennisþjófnaði svo dæmi séu tekin. Syndis hefur sterka samfélagslega sýn á að auka öryggisvitund almennings, fyrirtækja og stofnanna og hefur nú þá stærðarhagkvæmni til að taka að sér fleiri stærri verkefni ásamt því að vinna markvisst í vöruþróun. Áhersla á sjálfvirknivæðingu og skýjalausnir fyrir viðskiptavini er lykilfókus rekstrarþjónustu Origo.  Sjálfvirknivæðing  viðskiptavina sem mun skila færri handtökum, auknum hraða og öryggi. Sviðið hefur markvisst verið að bæta við starfsfólki með sérþekkingu á skýjalausnum til að mæta betur eftirspurn og tryggja viðskiptavinum farsælli vegferð í skýjavæðingu. Áhersla er lögð á ráðgjöf um nýtingu skýjalausna með áherslu á öryggi, hagkvæmni og að viðkomandi lausnir styðji sem best við starfsemi og vegferð viðskiptavina.  Rekstrarþjónusta er að breytast mikið með meiri skýjavæðingu og við mætum henni með markvissri uppbyggingu og aðlögun lausnaframboðs og nálgun í ráðgjöf til viðskiptavina. Við munum draga úr kerfisrekstri sértækra upplýsingakerfa þar sem ekki er samlegð í stærðarhagkvæmni eða tækifæri til umbóta.

Samhliða hefur Origo lokið uppbyggingu á landfræðilega aðskildu gagnaversumhverfi Origo. Við sjáum ávinning af þeirri fjárfestingu, en fleiri sjá sér hag í að nýta tvöfalda uppsetningu á mikilvægum kerfum og örugga varðveislu á gögnum.

Á hugbúnaðarsviðum félagsins er áframhaldandi vöxtur. Origo heldur áfram að styrkja sig í viðskiptahugbúnaði frá þriðja aðila, ekki síst með stöðugri þróun eigin lausna innan viðskiptahugbúnaðar eins og SAP S/4HANA og Microsoft Business Central. Félagið bætti á tímabilinu við fimm nýjum hugbúnaðarvörum fyrir Business Central á markaðstorgi Microsoft og hefur gengið vel að þróa og selja viðbótarvörur fyrir SAP. Áhersla er á þróun skýjalausna sem einfalt er að innleiða og þar sem öflug samþætting þróunar og rekstrar skilar miklum ávinningi. Í eigin hugbúnaði, sem er nokkuð vel skilgreindur í kringum heilbrigðisþjónustu, mannauðslausnir, gæðakerfi og lausnir fyrir ferðaþjónustu, hefur gengið vel en um 30% aukning er í tekjum milli ára. Mesti vöxturinn er innan sprotahlutans, eða 55%, en þar eru sex mismunandi lausnir á nokkuð breiðu þroskastigi. Kjarni, mannauðs- og launakerfið, er skýrt dæmi um leiðandi skýjalausn á Íslandi, en þar heldur vöruframboð og viðskiptavinum áfram að fjölga. Þá hefur gengið vel að styrkja þekkingu og sækja verkefni á sviði viðskiptagreindar, auk þess sem nýjar og spennandi lausnir á þeim vettvangi eru að líta dagsins ljós. Hjá heilbrigðislausnum er spennandi að fylgjast með þróun heimahjúkrunarappsins Smásögu, en appið hefur fengið frábærar móttökur hjá starfsfólki. Það er notað af öllum stærri heilsugæslum landsins og þykir bæta þjónustu sem heilsugæslan veitir skjólstæðingum sínum. Sama má segja um Justly Pay, jafnlaunavottunarhugbúnaðinn sem fjallað var um hér fyrr..

Annar ársfjórðungur Tempo er mjög sterkur og umfram væntingar. Velta er 35% hærri en fyrir sama fjórðung á síðasta ári og vöxtur í EBITDA 51%, sem skýrist þó að einhverju leyti af lægri kostnaði vegna seinkunnar á ráðningum. Tempo stefnir að því að vera leiðtogi á sviði stafrænna tímaskráninga og ná einnig  fótfestu utan Atlassian markaðstorgsins. Félagið vinnur áfram að þróun á vörunum og þá sérstaklega tengingum og frekari sjálfvirkni ásamt því að fjárfesta í að fá enn fleiri viðskiptavini til að prófa hugbúnaðinn.

Origo á von á ágætu framhaldi á þriðja fjórðungi ársins. Vinna félagsins í að gera einingar sjálfstæðari og vinna í auknum sveigjanleika og hagræðingu er ætlað að skila sterkara fyrirtæki og bættum rekstri. Með markvissri nálgun í sölu- og markaðsmálum munum við ná að nýta þá stærðarhagkvæmni sem félagið hefur yfir að ráða og byggja betur undir sterka stöðu okkar sem þjónustufyrirtæki með framtíð í að hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum að takast á við og nýta sér tækifærin í tækni og þeim breytingum sem stafrænt umhverfi hefur fram að færa. Samhliða þessu erum við mjög spennt fyrir verkefnum í  upplýsingaöryggi og teljum það vera lykilatriði að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að auka öryggisvitund þeirra og hlúa að stafrænum öryggismálum, ekki síður en þau huga að öðrum öryggismálum sínum."

Stikkorð: Origo