Rekstrarhagnaður Origo lækkar um nærri helming, eða 48%, milli ára, úr 289,8 milljónum króna í 151 milljón króna, á fjórða ársfjórðungi, en þá er ekki gert ráð fyrir afkomu Tempo inn í reksturinn. EBITDA félagsins lækkaði milli ára úr tæplega 423,3 milljónir króna á fjóra 302,1 milljón eða um 28,6%. Hagnaðurinn nam hins vegar 90 milljónum króna á tímabilinu.

Fyrir árið 2019 í heild nam hagnaðurinn 456 milljónum króna, sem er töluverð breyting frá árinu 2018, en eins og Viðskiptablaðið sagði frá seldi Origo ríflega helminginn í dótturfélaginu Tempo í lok árs 2018, sem skilaði tæplega 5,1 milljarði af 5,3 milljarða hagnaði fjórða ársfjórðungs 2018, og 5,4 milljörðum á árinu 2018 öllu.

Ef tekjur Tempo eru undanskildar, jukust tekjur félagsins af sölu og þjónust um 5,7% frá sama tíma árið 2018, og námu þær 4.336 milljónum króna. Tekjuvöxturinn fyrir árið í heild, án áhrifa Tempo, nam 7,5% og námu tekjurnar 14.845 milljónum króna fyrir árið 2019.

Hér má sjá helstu upplýsingar:

  • Framlegð nam 1.325 mkr (30,6%) á fjórða ársfjórðungi og 3.845 mkr árið 2019 (25,9%) (F4 2018: 26,6%, árið 2018: 26,6%) 4.173
  • EBITDA nam 302 mkr (7,0%) á fjórða ársfjórðungi og 1.006 mkr (6,8%) árið 2019 [F4 2018: 423 mkr (9,5%), 12M 2018: 1.128 mkr (7,2%)]
  • Heildarhagnaður nam 90 mkr á fjórða ársfjórðungi (F4 2018: 5.285 mkr) og 456 mkr árið 2019 (12M 2018: 5.420 mkr)
  • Eiginfjárhlutfall er 57,1%
  • Veltufjárhlutfall er 1,34
  • Origo keypti í desember hótelstjórnunarkerfið The Booking Factory (TBF), heildarlausn fyrir litla til meðalstóra gististaði.

Finnur Oddson forstjóri Origo segir að heilt yfir hafi starfsemin gengið ágætlega á árinu 2019.

„Tekjur jukust um tæp 8%, EBITDA var 1006 mkr og  heildarhagnaður 456 mkr.  Afkomunni var aðeins misskipt eftir starfsþáttum, en hún var að mestu borin uppi af hugbúnaðartengdum verkefnum og þjónustu á meðan afkoma af rekstrarþjónustu og búnaðarsölu var í járnum,“ segir Finnur.

„Þetta er tímanna tákn og er til vitnis um þær miklu breytingar sem hafa orðið á lausnaframboði Origo og þörfum viðskiptavina á tiltölulega skömmum tíma. Þessi þróun fylgir einnig aukinni áherslu atvinnulífs hérlendis og erlendis á stafræna vegferð, þ.e. nýtingu stafrænnar tækni, einkum hugbúnaðar, til að laga þjónustu að þörfum viðskiptavina, bæta, hraða eða gera hagkvæmari.“

Finnur segir félagið sérlega ánægt með þróun í rekstri hugbúnaðareininga Origo á árinu, þó svo aðeins hafi dregið úr tekjuvexti og afkomu á fjórða ársfjórðungi.

„Origo hefur fjárfest verulega í þróun eigin lausna á mörgum sviðum, svo sem ferðaþjónustu, fjármálaþjónustu, mannauðsstjórnun og stýringu innkaupa. Með breiðara lausnaframboði og áherslu á þróun eigin lausna eru tekjustoðir hugbúnaðareininga nú bæði fleiri og fjölbreyttari en áður.  Viðskiptavinum hefur fjölgað verulega og telja nú í hundruðum þar sem áður voru tugir.  Hvoru tveggja dregur úr áhættu í rekstri og sveiflum í afkomu."