Hagnaður Origo á þriðja ársfjórðungi nam 90 milljónum íslenskra króna, sem er mikil aukning frá sama tíma fyrir ári þegar hann nam tæplega 15 milljónum króna.

Tekjur félagsins jukust um 15% milli ára, úr tæplega 3,5 milljörðum króna í rétt tæplega 4 milljarða króna, en á sama tíma jukust rekstrargjöldin um 14,2%, úr tæplega 3,4 milljörðum í ríflega 3,8 milljarða króna. Rekstrarhagnaður félagsins jókst um 40%, úr 99 milljónum í 143 milljónir króna á ársfjórðungnum, meðan EBITDA hagnaðurinn jókst úr 254 milljónum í 338 milljónir króna.

Félagið segir að netverslun Origo hafi tvöfaldast á tímum kórónuveirufaraldursins, en framlegð félagsins jókst um fjórðung á þriðja ársfjórðungi, úr 747 milljónum í einn milljarð króna.

EBITDA lækkaði á 9 mánaða tímabili

Framlegðin á fyrstu níu mánuðum ársins jókst um 24,5%, í 3 milljarða úr 2,5 milljörðum króna, en tekjurnar jukust um nærri 16% á tímabilinu, úr 10,5 milljörðum í tæpa 12,2 milljarða króna. EBITDA hagnaðurinn það sem af er ári dróst hins vegar saman, eða úr 704 milljónum í 698 milljónir króna, meðan hagnaðurinn jókst úr 366 milljónum í 461 milljón króna.

Eigið fé félagsins jókst úr 6,8 milljörðum í ársbyrjun í 7,1 milljarð króna, meðan skuldurnir héldust nokkurn veginn í stað, í tæplega 5,1 milljarði króna. Þar með jukust eignirnar úr tæplega 11,9 milljörðum í ríflega 12,1 milljarð, og eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 75,1% í 58,2%.

„Niðurstaðan á þriðja ársfjórðungi er yfir væntingum, bæði í sölu og afkomu, og sýnir að Origo hefur unnið vel úr sínum aðstæðum á síðasta fjórðungi. Styrkleiki fyrirtækisins í að leysa stór og flókin verkefni auk hagfelldra skilyrða fyrir hluta af starfsemi Origo hefur skilað þessum góða árangri,“ segir Jón Björnsson forstjóri Origo.

„Umbreyting á starfsemi í notendabúnaði og tengdri þjónustu, aukin eftirspurn eftir rekstrarþjónustu og innviðum hjá Origo og góður rekstur Applicon eru lykilatriði í bættum rekstri. Niðurstaðan er einn af betri rekstrarfjórðungum í rekstri Origo, þegar horft er til hagnaðar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta.

Félagið telur sig eiga inni töluverð tækifæri til að þjóna viðskiptavinum betur og styrkja rekstur Origo enn frekar. Origo leggur metnað sinn í að vera framúrskarandi í þróun hugbúnaðarvara og hyggur á frekari fjárfestingar í eigin vörum. Samhliða því telur félagið ástæðu til að sækja fram og styrkja enn frekar hugbúnaðarteymi sín, bæði í þróun eigin hugbúnaðarvara ásamt styrkingu á því teymi sem kemur að stafrænum umbreytingarverkefnum.“