Hagnaður Origo nam 180 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi en á sama tíma í fyrra tapaði félagið 35 milljónum. Hagnaður félagsins jókst því um 215 milljónir króna milli ára. EBITDA hagnaður Origo hækkaði um 27% milli ára og nam 301 milljón króna á fjórðungnum, samkvæmt árshlutareikningi félagsins sem var birtur í gær.

Sala samstæðunnar dróst saman um 103 milljónir króna milli ára og nam 4,2 milljörðum króna á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þrátt fyrir tekjusamdráttinn hækkaði framlegð Origo og nam 1,1 milljarði króna.

„Fyrsti fjórðungur 2021 kemur ágætlega út fyrir félagið. Samanburður við fyrra ár er vissulega erfiður sökum breytinga í efnahagslífinu, sem urðu á sama fjórðungi síðasta árs. Fjórðungurinn endar 2,4% undir veltu síðasta árs sem skýrist eingöngu af lítilli innviðasölu miðað við síðasta ár þegar fyrirtækið gekk frá stórum sölum til gagnavera. Tekjur annarra þátta eru hins vegar að vaxa,“ segir Jón Björnsson , forstjóri Origo, í tilkynningu .

Eigið fé samstæðurunnar í lok mars var um 7,2 milljarðar króna og jókst um 163 milljónir frá áramótum. Skuldir félagsins lækkuðu um 278 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins og námu 5,1 milljarði í lok fjórðungsins. Eiginfjárhlutfallið hækkaði því úr 56,5% í 58,6%.

Í lok mars keypti Origo allt hlutafé í netöryggisfyrirtækinu Syndis en með kaupunum munu öryggislausnir fyrirtækjanna tveggja sameinast undir vörumerkinu Syndis. Jón segir að með þessum kaupum skipar Origo sig fremst í flokki innan öryggismála í stafrænum heimi hérlendis.

Origo keypti einnig um 30% eignarhlut í tæknifyrirtækinu Datalab sem þróar lausnir sem byggja á gervigreindartækni og veitir ráðgjöf um hagnýtingu slíkra lausna.

Fram kemur að fjárfesting samstæðunnar í eigin innviðum sé á lokametrum og að Origo geti nú boðið íslenskum fyrirtækjum landfræðilegan aðskilnað kerfa og gagna, tvöfalda uppsetningu á milli kerfissala auk þess að reka og vakta þjónustu viðskiptavina í skýinu.

Fyrsti ársfjórðungur var metfjórðungur hjá hlutdeildarfélaginu Tempo, sem Origo á 43,2% hlut í, en tekjur félagsins jukust um 32% milli ára. EBITDA hagnaður Tempo hækkaði einnig um 43% frá fyrra ári. Ekki er búist við sama vexti á öðrum ársfjórðungi, að sögn Jóns.

Í tilkynningu Origo segir að félagið stefni að auknum hlut kvenna í tæknistörfum og af 25 nýráðningum í ár er hlutfall kvenna 52%. Á fyrsta ársfjórðungi var hlutfall kvenkyns starfsmanna um 26%. Stöðugildi Origo voru 519 í árslok 2020.