Upplýsingatæknifyrirtækið Origo hefur keypt 30% hlut í tæknifyrirtækinu DataLab, sem þróar lausnir sem byggja á gervigreindartækni og veitir ráðgjöf um hagnýtingu slíkra lausna. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að markmið með kaupum Origo í DataLab sé að efla þjónustu á gagnadrifnum og snjöllum lausnum, þar sem fjölbreytt gögn og aðferðir úr smiðju gervigreindar og gagnavísinda séu nýttar til að sjálfvirknivæða viðskiptaferla, bæta upplifun notenda, auka sölu, draga úr óvissu, áhættu og kostnaði og auka skilvirkni í rekstri.

„Gervigreind og nýting gagna úr ólíkum áttum verður sífellt stærri þáttur í rekstri fyrirtækja, þar sem þau geta skipt sköpum í sívaxandi samkeppni. Í raun eru gögn alls staðar, en oft illa flokkuð sem gerir starfsfólki erfiðara um vik að nýta þau bæði til innri og ytri nota. Þess vegna getur gervigreind og gagnavísindi hjálpað okkur að draga fram þær upplýsingar sem máli skipta, bætt reksturinn og aukið samkeppnisfærni fyrirtækja. Við sjáum stóraukinn áhuga viðskiptavina okkar á nýta gagnadrifnar lausnir í sínum rekstri og með kaupum í DataLab, sem við teljum vera leiðandi á sínu sviði, sjáum við fram á að geta komið enn betur til móts við stórbreyttar þarfir markaðarins,“ segir Örn Þór Alfreðsson, framkvæmdastjóri Þjónustulausna hjá Origo, í fréttatilkynningu.

„Vöxtur í stafrænni tækni, ekki síst gagnadrifnum lausnum sem byggja á gervigreind, hefur verið afar hraður síðustu ár. Mörg fyrirtæki reiða sig alfarið orðið á slíkar lausnir til að besta sinn rekstur og efla þjónustu, þar á meðal fjölmörg íslensk fyrirtæki. Engu að síður erum við rétt að hefja vegferð sem byggir á gagnadrifnum lausnum og við í DataLab finnum fyrir sívaxandi áhuga á okkar sérþekkingu. Við bindum miklar vonir við samstarfið við Origo, sem hefur verið leiðandi fyrirtæki í hugbúnaðarþróun og stafrænum lausnum. Bæði félög sjá veruleg samlegðaráhrif með kaupunum og enn öflugara lausnaframboð en áður,“ er haft eftir Brynjólfi Borgari Jónssyni, stofnanda DataLab.