*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 29. maí 2019 17:05

Origo kaupir Strikamerki hf.

Kaupa félag með 400 milljóna veltu og vörumerkin Snerta, SagaPOS, IceLink, IceLabel og IceMonitor.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í dag var skrifað undir kaupsamning vegna kaupa Origo hf. á öllu hlutafé í Strikamerki hf. Á síðasta ári voru tekjur félagsins um 360 milljónir króna árið en hjá fyrirtækinu starfa 10 manns. Viðskiptin eru meðal annars háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, en stefnt er að því að kaupin gangi í gegn á þriðja ársfjórðungi 2019.

Strikamerki er upplýsingatæknifyrirtæki sem útvegar fyrirtækjum lausnir fyrir rafrænan rekstur í formi vélbúnaðar, hugbúnaðar, ráðgjafar og þjónustu, en félagið þróar og selur eigin hugbúnaðarlausnir undir vörumerkjunum Snerta og SagaPOS verslunarkerfi, IceLink handtölvulausnir, IceLabel prentlausnir og IceMonitor gagnastýringar. Þessar vörulínur eru í notkun hjá fjölmörgum íslenskum fyrirtækjum.

Áherslur fyrirtækisins eru á afgreiðslulausnir, handtölvulausnir og prentlausnir en undir þessa flokka falla meðal annars afgreiðsluhugbúnaður, sjálfsafgreiðslulausnir, afgreiðslukassar, miðasölukerfi, bókhaldskerfi, handtölvur, handtölvuferli, þráðlaus net, raddstýringarbúnaður, staðsetningarbúnaður, rúmmálsskannar, prentarar, prentlausnahugbúnaður, rekstrarvörur og álímingarbúnaður. Helstu viðskiptavinir eru verslanir, vöruhús, veitingahús og önnur þjónustufyrirtæki.

Finnur Oddsson, forstjóri Origo, segir kaupin vera spennandi áfanga fyrir bæði fyrirtækin og stóran hóp viðskiptavina þeirra. „Markmiðið með kaupum á Strikamerki er að breikka lausnaframboð okkur og styrkja á ákveðnum sviðum, einkum í afgreiðslulausnum og tæknibúnað fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi þar sem þróun er hröð og ákall viðskiptavina um aukið hagræði skýrt,“ segir Finnur.

„Við munum áfram leitast við að þjóna þessum síbreytilegum þörfum viðskiptavina enn betur og eru kaupin á Strikamerki liður í því.”

Sæmundur Valdimarsson, framkvæmdastjóri Strikamerkis segir: „Strikamerki er rúmlega tveggja áratuga gamalt, traust upplýsingatæknifyrirtæki sem hefur meðal annars útvegað mörgum af stærri fyrirtækjum landsins lausnir, vörur og þjónustu fyrir rafrænan rekstur. Hjá Strikamerki starfar öflugur hópur sérfræðinga sem mun halda áfram að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu,“ segir Sæmundur.

„Í kaupum Origo á Strikamerki felast tækifæri fyrir starfsmenn Strikamerkis að ganga til liðs við eitt öflugasta upplýsingatæknifyrirtæki landsins því í stærri heild eru fleiri tækifæri, fjölbreyttari verkefni og nýir vinnufélagar. Síðasta en ekki síst er þetta jákvætt fyrir viðskiptavini Strikamerkis því nú munu þeir hafa aðgang að öflugu 24/7 þjónustuborði og geta nú í raun fengið úrlausn allra sinna upplýsingatæknimála á einum stað.”