*

mánudagur, 24. júní 2019
Innlent 25. apríl 2018 17:22

Origo tapar 26 milljónum

Afkoma Origo versnar um 97 milljónir milli ára en forstjórinn horfir þó björtum augum fram á veginn.

Ritstjórn
Finnur Oddsson, forstjóri Origo.
Haraldur Guðjónsson

Origo tapaði 26 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Afkoma félagsins versnar því um 97 milljónir milli ára þar sem hagnaður á fyrsta ársfjórðungi 2017 nam 71 milljón króna. Rekstartekjur félagsins drógust saman um 5% milli ára og námu 3,8 milljörðum króna. Þá lækkaði rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) úr 242 milljónum í 102 milljónir króna milli ára.

„Vörusala á tæknibúnaði dróst saman, m.a. vegna vöruskorts í lykilflokkum, færri stórar sölur á miðlægum búnaði gengu í gegn á fjórðungnum en venja er til ásamt því að töluverður einskiptiskostnaður féll til vegna sameiningar Nýherja, Applicon og TM Software, nafnabreytingar og tilheyrandi markaðssetningar. Aukinn launakostnaður, m.a. vegna hækkunar kjarasamninga, hefur svo áfram neikvæð áhrif á afkomu Origo, „ segir Finnur Oddsson, forstjóri Origo í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Hann horfir þó björtum augum á framtíðina og býst við að afkoma næstu ársfjórðunga verði nær afkomu síðasta árs.

„Þó að við séum ekki sátt við rekstrarniðurstöðu Origo á fyrsta fjórðungi ársins, þá erum við bjartsýn á árið framundan.  Birgðastaða er góð ólíkt því sem var á fyrsta fjórðungi og góð eftirspurn eftir tæknibúnaði.  Nýju vörumerki hefur verið afar vel tekið, kynning hefur gengið vel og sýna kannanir sterka tengingu þess við upplýsingatækni og þjónustu. Þessi sterka staða og hagræði sem hlýst af sameiningu rekstrar okkar undir einn hatt gerir okkur kleift að takast á við spennandi tíma framundan og þjóna viðskiptavinum okkar enn betur,“ er haft eftir Finni.

Félagið sendi frá sér afkomuviðvörun fyrir tveim vikum þar sem kom fram að ætlað tap á ársfjórðungnum yrði 30 til 40 milljón króna og gaf Origo út að kostnaður við nafnabreytingar og sameiningar hefði numið um 50 milljónum króna.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is