Origo tapaði 53 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 138 milljóna hagnað á sama tíma á síðasta ári. Einskiptiskostnaður vegna skipulagsbreytinga og forstjóraskipta nam 130 milljónum á öðrum fjórðungi ársins. Það felur í sér starfslok bæði Finns Oddsonar og Tomas Wikström hjá Applicon, dótturfélagi Origo í Svíþjóð, ásamt hagræðingaraðgerðum.

Sala Origo á vöru og þjónustu nam 3,9 milljörðum á öðrum ársfjórðungi, sem er 11,6% tekjuvöxtur frá fyrra ári. Framlegð nam 934 milljónum á tímabilinu. Rekstrarkostnaður félagsins var 979 milljónir á tímabilinu.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélags, vegna Tempo, var 35 milljónir á öðrum ársfjórðungi samanborið við 46 milljónir á sama tímabili árið 2019. Þýðingarmunur vegna starfsemi dóttur- og hlutdeildarfélaga var neikvæður um milljónir á fjórðungnum.

Eignir Origo námu 12,4 milljarðar í lok júlí og jukust um 512 milljónir milli ára. Eigið fé var rúmir sjö milljarðar, skuldir 5,4 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 56%.

Í tilkynningu Origo segir að COVID-19 faraldurinn hefur haft áhrif á ýmsa þætti í starfsemi félagsins. Sem dæmi hefur eftirspurn eftir fjarvinnu- og fjarfundalausnum verið mikil. „Þá hefur Origo gegnt stóru hlutverki í lausnum og búnaði fyrir COVID-19 skimun og prófanir á landamærum landsins.“ Á sama tíma hefur verið samdráttur hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem dregið hefur úr tekjum og afkomu í rekstrarþjónustu og sölu á ferðalausnum.

Jón Björnsson tók formlega við sem forstjóri Origo á föstudaginn síðasta. Gunnar Már Petersen fjármálastjóri hafði gegnt stöðunni tímabundið eftir að Finnur Oddsson lauk störfum í lok júní.