Orka náttúrunnar selur nú fólki og fyrirtækjum raforku sem framleidd er í tveimur vindmyllum fyrirtækisins Biokraft sem risnar eru í Þykkvabæ. Framleiðslan á að geta fullnægt raforkuþörf um þúsund heimila. Biokraft áformar að reisa fleiri vindmyllur á næstu árum.

Eigendur Biokraft eru Snorri Sturluson og Steingrímur Erlingsson. Að sögn þeirra þykir Þykkvibær hentugur fyrir vindmyllur þar sem landið sé flatt, langt sé í næstu fjöll, nálægðin við sjó sé mikil og vindurinn jafn. „Við hyggjumst setja upp fleiri vindmyllur og erum að skoða virkjunarkosti. Allt Suðurlandið er undir í okkar áformum, en við vitum að Þykkvabæjarsvæðið er mjög gott og heimamenn jákvæðir, þannig að við byrjum þar.“

Páll Erland, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, segir það mikilvægt að þegar samið var um orkukaupin af Biokraft var einnig samið um aðgang Orku náttúrunnar að upplýsingum um verkefnið, byggingar- og rekstrarkostnað og vinnslusögu. „Það er mjög gott að fá þetta tækifæri til að fá kynnast nýtingu vindsins og það hentar Orku náttúrunnar vel að gera þetta í samstarfi við aðila eins og Biokraft,“ segir Páll.