Umframraforka hins íslenska raforkukerfis – sem mikið hefur verið notuð í að grafa eftir rafmyntum – fer þverrandi að sögn Harðar Arnarssonar forstjóra Landsvirkjunar. Þetta kemur fram í frétt á vef fréttamiðilsins livemint.com .

Ísland og fleiri norðurlönd hafa verið afar vinsæl fyrir slíka starfsemi, bæði vegna hreinleika raforkunnar, sem notað er gífurlegt magn af í þessum tilgangi, og ekki síður vegna veðurfarsins, en tölvurnar sem notaðar eru hitna mikið og þarfnast mikillar kælingar.

Í fréttinni er aukin ásókn hefðbundnari iðnaðar á borð við álbræðslu, olíuvinnslu og stálframleiðslu sögð munu ganga verulega á þá umframraforku sem til staðar hefur verið á næstu misserum.

Hörður segir að samhliða aukinni áherslu á umhverfismál hafi áhugi allskyns starfsemi á hreinni orku aukist mikið. Útlit sé því fyrir að afar lítil umframorka verði eftir á næsta ári eða jafnvel í ár.

Vísað er í að samkvæmt Rafmyntaráði Íslands hafi allt að 8% af öllum greftri eftir rafmyntinni Bitcoin farið fram hér á landi fyrir aðeins um fjórum árum síðan. Slík starfsemi hafi hinsvegar aukist verulega í Kína, og nú sé hlutdeild Íslands komin undir 2%, sumir áætla allt niður í 0,35%, en á sama tíma stendur Kína nú undir um tveimur þriðju hlutum alls Bitcoin graftar.