Klappir Development ehf. og kínverska fyrirtækið China Nonferrous Metal Industry´s Foreign Engineering and Construction (NFC) skrifuðu í júlí í fyrra undir viljayfirlýsingu um fjármögnun 120 þúsund tonna álvers við Hafurstaði, skammt sunnan Skagastrandar. Ingvar Unnsteinn Skúlason, forsvarsmaður Klappa, segir að enginn tímarammi sé um yfirlýsinguna, hún sé því í fullu gildi.

„Viljayfirlýsingin heldur og þeir koma til með að vera með okkur í verkefninu," segir Ingvar. "Fyrst og fremst mun NFC tryggja okkur nýjustu tækni. Þeir eru líka búnir að tryggja okkur lánsfjármagn og koma til með að tryggja okkur samstarfsaðila ef við óskum eftir því. Við höfum hug á því að taka þátt í þessu verkefni sjálfir og viljum að álverið verði að stórum hluta í eigu Íslendinga en væntanlega mun eitthvað fyrirtæki tengt NFC líka eiga hlut."

Hann segir að áætlaður kostnaður við byggingu 120 þúsund tonna álvers sé um milljón dollarar eða um 125 milljarðar króna. Verkefnið verði fjármagnað með lánsfé frá Kínverska þróunarbankanum eða öðrum kínverskum banka.

„Það er lítið hægt að segja um framhaldið fyrr en við vitum hvaða orka er í boði," segir Ingvar. „Orkan er eini þröskuldurinn fyrir verkefninu. Við erum komnir langleiðina með að leysa aðra hluti. Stóra málið er að það er ekki til orka og það vantar fleiri virkjunarkosti. Við höfum talað við orkufyrirtækin og verið vel tekið. Menn hafa sagt að ef orka er til þá séu þeir tilbúnir að selja."

Í Viðskiptablaðinu er líka fjallað um fjárveitingu ríkisins vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðis á Hafurstöðum .

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .