*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 11. september 2018 08:45

Orkan opnar vetnisstöð við Miklubraut

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur nú veitt leyfi til að opna vetnisstöð á lóð Orkunnar við Miklubraut í Reykjavík.

Ritstjórn
Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs.
Haraldur Guðjónsson

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkur hefur nú veitt leyfi til að opna vetnisstöð á lóð Orkunnar við Miklubraut í Reykjavík. Verður þetta þriðja vetnisstöð Orkunnar en í sumar voru opnaðar vetnisstöðvar á Vesturlandsvegi í Reykjavík og að Fitjum í Reykjanesbæ. Stefnt er að opnun stöðvarinnar við Miklubraut í kringum áramótin.

„Við höfum átt einkar gott samstarf við Reykjavíkurborg og Reykjanesbæ um opnun vetnisstöðvanna. Staðsetning þessarar vetnisstöðvar, við Miklubraut, er að okkar mati afar heppileg. Hún verður miðsvæðis í borginni og liggur vel við öllum samgöngum. Stöðin á Miklubraut býður jafnframt upp á það að vetnisdælan sjálf geti verið undir skyggni stöðvarinnar. Venjur neytandans ættu þannig að geta verið þær sömu og við notkun jarðefnaeldsneytisbifreiðar; hann getur mætt á Orkustöð og fyllt á bílinn á 3-5 mínútum og ekið á fullum tanki upp undir 600 km og lengra á þeim Hyundai bifreiðum sem væntanlegar eru í haust. Þá höfum við stillt verðið á vetninu af þannig að orkukostnaðurinn ætti ekki að vera meiri en af rekstri sambærilegrar jarðefnaeldsneytisbifreiðar. Stóri munurinn er þó óneitanlega sá að vetnisknúnir rafbílar menga ekki. Eini útblásturinn frá þeim er hreint vatn,“ segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs.

„Skemmtilegt er frá því að segja að Miklubrautarstöðin verður sannkölluð fjölorkustöð. Þar verður hægt að kaupa, auk jarðefnaeldsneytis, bæði vetni og metan. Þá erum við að skoða með Orku Náttúrunnar hvort rétt sé að staðsetja þar hraðhleðslustöð fyrir rafmagnsbíla en ON mun einnig  sjá um framleiðslu vetnisins við jarðhitavirkjun sína á Hellisheiði. Fjölorkustöðvar sem þessi eru vandfundnar á heimsvísu og erum við mjög stolt að því að geta rutt veginn í orkugjöfum framtíðarinnar.“