„Við vildum vanda okkur mikið því þetta er svo mikilvægur málaflokkur,“ segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, um orkufrumvarp iðnaðarráðherra. Frumvarpið var afgreitt úr þingflokki sjálfstæðismanna í fyrradag, eins og fram hefur komið á vb.is, en með fyrirvara hóps þingmanna um einstök atriði.

Forsætisráðherra hefur að sögn Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns sjálfstæðismanna, verið falið að ræða þau atriði við iðnaðarráðherra. Þingflokkur sjálfstæðismanna hefur haft frumvarpið mun lengur til skoðunar en þingflokkur Samfylkingarinnar. Sá síðarnefndi afgreiddi það fyrir sitt leyti snemma í janúar. Þar áður hafði ríkisstjórnin samþykkt frumvarpið. Búist er við því að frumvarpinu verði breytt í átt að tillögum sjálfstæðismanna áður en því verður dreift á Alþingi.

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum, verði ekki heimilt að framselja með varanlegum hætti orkuauðlindir sínar. Þá er í því lagt til að greint verði á milli samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Jafnframt er lagt til að fyrirtæki sem stunda sérleyfisstarfsemi verði að meirihluta í opinberri eigu. Ekki fæst uppgefið nákvæmlega um hvað athugasemdir sjálfstæðismanna snúast. Eftir því sem næst verður komist varða þær meðal annars ýmsar útfærslur efnisatriða frumvarpsins og hve langt eigi að ganga varðandi eignarhald hins opinbera á auðlindum.