Orkufrumvarp iðnaðarráðherra, Össurar Skarphéðinssonar, er nú til umfjöllunar í iðnaðarnefnd þingsins. Fyrstu umræðu um frumvarpið lauk á Alþingi í liðinni viku. Sjálfstæðisþingmennirnir Pétur H. Blöndal og Sigurður Kári Kristjánsson settu þar fyrirvara við ýmsa þætti þess.

Össur Skarphéðinsson mælti fyrir frumvarpinu. Hann sagði að efni frumvarpsins mætti gróflega skipta í þrjá þætti: „Í fyrsta lagi er lagt til að í lögum verði kveðið á um að opinberum aðilum sé að meginstefnu til óheimilt að framselja varanlega vatns- og jarðhitaréttindi. Í öðru lagi er líka lagt til að samkeppnis- og sérleyfisþættir í rekstri orkufyrirtækja verði almennt reknir í aðskildum félögum. Í þriðja lagi er svo kveðið á um það að sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækjanna skuli vera í höndum fyrirtækja sem eru a.m.k. að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila.“