Orkufyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hélt kynningarfund fyrir fjárfesta og samstarfsaðila í höfuðstöðvum sínum í dag.  Tilefnið var 2 ára afmæli fyrirtækisins auk þess sem kynnt voru fyrirhuguð kaup og uppsetning á verksmiðju þeirra hérlendis. CRI endurvinnur koltvísýring úr gufu jarðhitavirkjana og útblæstri stóriðjuvera til framleiðslu á metanóli.

Andri Ottesen, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs CRI, segir verksmiðjuna vera keypta í stökum hlutum erlendis frá og setta upp hér á landi.  Búast megi við fyrstu einingunum í lok þessa mánaðar og gert sé ráð fyrir að verksmiðjan skili fullum afköstum eftir rúmlega ár.  Ekki er búið að fastsetja staðsetningu hennar en Andri segir þá binda vonir við að hún verði staðsett í Svartsengi á Suðurnesjum.

Verksmiðjan mun framleiða metanól sem verður blandað í bensín og verður framleiðslan seld til olíufélaganna hérlendis.  Að sögn Andra er verksmiðjunni ætlað að sýna fjárfestum, stjórnvöldum og almenningi fram á að starfsemin sé hagkvæm.  ,,Ef það gengur eftir förum við strax í að reisa tvær 10 sinnum stærri verksmiðjur" segir hann og bætir við að langtímamarkmið fyrirtækisins sé að fullnægja þörfum íslenska markaðarins fyrir fljótandi eldsneyti, bæði fyrir bíla og skip.

Á fundinum var einnig kynnt ný stjórn félagsins en hana skipa Sindri Sindrason, fjárfestir, sem er stjórnarformaður, Steve Grady forstjóri fjárfestingafélagsins Focus Group, KC Tran, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og Friðrik R. Jónsson.  Tveir fyrstnefndu koma nýir inn í stjórn og er Sindri Sindrason einnig nýr hluthafi í fyrirtækinu.  Auk fyrrnefndra aðila eigi innlendir og erlendir einstaklingar hlut í félaginu.  Andri segir mikinn áhuga á félaginu hjá fjárfestum og búast megi við nýjum aðilum í hluthafahópinn fljótlega.

Stærstu eigendur fyrirtækisins eru Landsbankinn, Olís, bandaríska fjárfestingafélagið Focus Group og Sindri Sindrason.  Meðal stofnenda fyrirtækisins eru Íslendingarnir Oddur Ingólfsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, og Friðrik R. Jónsson.  Aðrir sem komu að stofnun þess eru núverandi framkvæmdastjóri, KC Tran og Arthur Schulenberger.