Það eru bjartir tímar framundan í orkumálum enda mikil eftirspurn eftir orku, sagði Stefán Pétursson, forstjóri HydroKraft Invest á morgunfundi Viðskiptablaðsins sem nú stendur yfir.

Stefán sagði helsta vandamál orkufyrirtækja vera fjármögnun. Það getur verið erfitt að fá banka til að taka þátt í fjárfestingum ef þeir hafa sjálfir ekki aðgang að lánsfé, sagði Stefán. Hann sagði nauðsynlegt að Seðlabankinn tryggði bönkunum lausafé.

Hann sagði skynsamlegt fyrir orkufyrirtæki að reyna að gera samninga sem kalla á hóflegar fjárfestingar á næstunni í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum.

Mikil eftirspurn eftir orku

Hann sagði eftirspurn erlendra fjárfesta eftir hreinni íslenskri orku vera mikla þrátt fyrir efnahagsástand á alþjóðavísu. Nefndi hann sem dæmi beiðnir um byggingu nýrra álvera, netþjónabúa, framleiðslu hreinkísils og álþynnuframleiðslu.

Stefán sagði mikla kunnáttu hafa skapast hér á landi undanfarið. Nefndi hann sem dæmi að Landsvirkjun hefur lokið að mestu framkvæmdum við Kárahnjúkum, Orkuveita Reykjavíkur hefur komið Hellisheiðavirkjun og Hitaveita Suðurnesja hefur komið Reykjanesvirkjun í rekstur.

Í framhaldi af því sagði Stefán að orkugeirinn væri tilbúinn til útrásar, íslensk fyrirtæki hefðu nú þegar og myndu halda áfram að veita ráðgjöf auk þess að fjárfesta í orkuiðnaði erlendis.

Hann sagði orkuverð hér á landi vera samkeppnishæft og tók sérstaklega fram í máli sínu að orkuverð hér á landi hefði ekki verið selt of lágt eins og oft er látið í veðri vaka.

Stefán sagði þörfina fyrir orku sífellt vera að aukast og Íslendingar hefðu öll tækifæri í hendi sér til að láta að sér kveða í þessum vaxandi iðnaði.