Á fundi stjórnar Samtaka atvinnulífsins í dag var samþykkt umsókn Samorku um að gerast aðili að SA sem sjálfstætt aðildarfélag. Samorka, samtök raforku-, hita- og vatnsveitna, verður því áttunda aðildarfélag SA og öll 38 aðildarfyrirtæki Samorku verða jafnframt aðildarfyrirtæki SA. Samtök atvinnulífsins fagna þessum nýju aðilum sem efla enn stöðu samtakanna sem heildarsamtaka íslensks atvinnulífs. Spennandi tímar eru framundan í orkugeiranum með aukinni samkeppni í greininni og mikið fagnaðarefni fyrir SA að þessi fyrirtæki hafi kosið að gerast aðilar að samtökunum.

Þá samþykkti stjórnin texta í nýjar Áherslur atvinnulífsins í ellefu málaflokkum, sem drög hafa verið lögð að í öflugu málefnastarfi samtakanna undanfarna mánuði. Á undanförnum árum hefur mikill árangur náðst í íslensku atvinnulífi, hagvöxtur hefur verið hér mikill og Ísland mælist með efstu löndum á listum yfir samkeppnishæfni. Kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist um rúmlega 40% undanfarinn áratug. Það má því með sanni segja að Ísland sé um þessar mundir í úrvalsdeild. Á tímum hnattvæðingar og alþjóðlegrar samkeppni er sú staða þó engan veginn sjálfgefin. Í Áherslum atvinnulífsins eru settar fram tillögur sem ætlað er að stuðla að áframhaldandi veru Íslands í úrvalsdeild. Fjallað er um efnahagsmál, vinnumarkaðsmál, skattamál, reglubyrði og eftirlit, samkeppnismál, menntamál, rannsóknir og nýsköpun, umhverfismál, jafnréttismál, lífeyrismál og alþjóðamál.