Um helming allra 850 ársverka á stærstu íslensku verkfræðistofunum má rekja til orkutengdra verkefna. Að auki koma yfir 60 ársverk hjá ÍSOR og öðrum ráðgjafafyrirtækjum. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Sævarsdóttur, forseta verk- og tæknifræðideildar Háskólans í Reykjavík, á aðalfundi Samorku sem haldinn var á föstudag fyrir rúmri viku. Var þar fjallað um ásókn ungs fólks í tæknigreinar og mikilvægi þess að þekking í tengslum við orkugeirann sé byggð upp samhliða orkuframleiðslu.

„Tölurnar tala sínu máli,“ segir Guðrún. „Orkugeirinn er mikilvægur starfsvettvangur fyrir raunvísinda- og tæknimenntað fólk enda stór hluti af ungu fólki sem útskrifast úr verkfræðinámi hér á landi sem endar í störfum tengdum orkuverkefnum. Þó er frekar hár starfsaldur hjá orkufyrirtækjunum á Íslandi og því má leiða að því líkur að þörf verði á endurnýjun á tæknimenntuðu starfsfólki hjá þessum fyrirtækjum á næstu árum.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .