*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 31. mars 2018 11:09

Orkuhagsmunir Íslands ekki í húfi

Þriðji orkupakki ESB mun hafa lítil áhrif hér á landi. Pakkinn felur ekki í sér hækkun orkuverðs eða framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana ESB.

Snorri Páll Gunnarsson
Orkubúskapur Íslands byggir aðallega á jarðhita, vatnsafli og innfluttu jarðefnaeldsneyti. Hver íbúi hér á landi notar meiri orku en þekkist annars staðar.
Haraldur Guðjónsson

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins mun hafa mjög lítil áhrif hér á landi verði hann samþykktur á Alþingi. Tveir ríkisstjórnarflokkar hafa nýlega lýst því yfir að þeir líti framsal valds til alþjóðastofnana í orkumálum hornauga. Stilli Alþingi sér á móti pakkanum gæti það þó haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir EES-samstarfið, að sögn utanríkisráðuneytisins.

Mikil og heit umræða hefur verið um þriðja orkupakkann í Noregi undanfarin misseri, enda koma hagsmunir Norðmanna með beinni hætti við sögu en hér. Lítið sem ekkert hefur þó farið fyrir umræðu um pakkann hér á landi og áhrif hans á hagsmuni Íslands.

Þriðja orkupakka Evrópusambandsins (ESB) er ætlað að klára að skapa innri orkumarkað í ESB fyrir jarðgas og raforku. Innri orkumarkaðnum er ætlað að auka samþættingu innviða, stuðla að aukinni samkeppni og lægra orkuverði, og tryggja orkuöryggi í Evrópu.

Orkupakkinn inniheldur sex gerðir á sviði jarðgass og raforku, sem teknar eru upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Um er að ræða sameiginlegar reglur og skilyrði fyrir innri markaði með jarðgas og raforku. Tilgangur orkupakkans er að sundurgreina flutningskerfi frá öðrum orkurekstri, auka samstarf, fjárfestingar og viðskipti með orku milli landa, auka gegnsæi í kerfisrekstri og vinnslu og auka sjálfstæði landsbundinna eftirlitsyfirvalda. Þá er einnig mælt fyrir um að komið verði á fót samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, sem nefnist ACER (Agency for the Cooperation of Energy Regulators).

ACER er ætlað að tryggja samstarf milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda á orkumörkuðum í Evrópu. Stofnuninni er meðal annars falið, við sérstakar aðstæður, að útkljá deilur milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda um aðgengi að orkugrunnvirkjum yfir landamæri eða skera endanlega úr um slíka deilu ef eftirlitsyfirvöldin sem í hlut eiga biðja ACER að grípa inn í.

Sameiginleg EES-nefnd ESB og EFTA-ríkjanna þriggja í EES (Ísland, Noregur og Liechtenstein) hefur þegar samþykkt orkupakkann með stjórnskipulegum fyrirvara. Felur það í sér að að þjóðþing EFTA-ríkjanna eiga síðasta orðið í samþykkt orkupakkans.

Snertir Ísland takmarkað

Viðskiptablaðið leitaði eftir svörum hjá utanríkisráðuneytinu um það hvaða áhrif orkupakkinn kunni að hafa hér á landi, verði hann samþykktur á Alþingi. Af þeim svörum að dæma verða áhrifin afar takmörkuð, enda íslenski raforkumarkaðurinn ótengdur þeim evrópska.

Þar sem engum grunnvirkjunum sem ná yfir landamæri er til að dreifa hér á landi fellur íslenski orkumarkaðurinn ekki undir valdheimildir ACER. Í svari ráðuneytisins er bent á að í stað ACER sé Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) falið úrskurðarhlutverk gagnvart EFTA-ríkjunum, ef á myndi reyna. Þannig sé ACER-gerðin aðlöguð að tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

Tengist Ísland innri orkumarkaðnum í framtíðinni með sæstreng mun Ísland þó falla undir valdheimildir ACER. Á Alþingi í síðustu viku sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að engin áform væru uppi um að tengja íslenska raforkumarkaðinn við hinn evrópska.

Þá bendir ráðuneytið á að Íslandi sé tryggð mikilvæg aðlögun í þeim gerðum sem snerta raforku. Þannig sé Íslandi heimilt að viðhalda núverandi eignarfyrirkomulagi Landsnets, sem annast uppbyggingu og rekstur raforkukerfa sem og flutning raforku hér á landi. Ísland er einnig undanþegið gerðunum um jarðgas með öllu.

Í svari utanríkisráðuneytisins kemur einnig fram að upptaka þriðja orkupakkans hér á landi hefði engin áhrif á það hvort farið verði í lagningu sæstrengs til Evrópu. Jafnframt myndi það ekki hafa áhrif á eignarhald slíks sæstrengs.

Af svörum ráðuneytisins má leiða líkur að því að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér framsal á yfirráðum yfir íslenskum orkulindum og orkugrunnvirkjum til stofnana ESB. Jafnframt hefur pakkinn engin áhrif á orkuverð hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.