National Grid, sem segja má að sé orkuveita Bretlandseyja, birti í dag spá sína fyrir veturinn og má segja að útlitið sé ansi dökkt. Segja tölur að munurinn á framboði og eftirspurn eftir rafmagni verði einungis 1,2% á háannartímum í vetur og hefur bilið ekki verið minna í áratug samkvæmt National Grid. Business Insider greinir frá.

Því minna sem bilið er, því líklegra er að rafmagnsleysi geti átt sér stað á stórum svæðum. Fyrirtækið bendir á að það geti beitt neyðarúrræðum sem auka muninn í 5,1%, en jafnvel það bil er mun minna en eðilegt getur verið. Möguleikinn á alvarlegu rafmagnsleysi er því sannarlega til staðar.

Meðal neyðarúrræða er að opna gamlar og nánast ónothæfar rafmagnsstöðvar í stuttan tíma í senn. Forstjóri National Grid hefur trú á því að rafmagnsleysi verði ekki að raunveruleika en ljóst að ekki má mikið út af bregða.