Raforkuverð í Evrópu er í hæstu hæðum svo víða er talað um orkukrísu. Viðsnúningurinn hefur verið hraður en verðhrun varð í kórónuveirukreppunni fyrir ári. Nordpool raforkumarkaðurinn fór langt undir 10 evrur á MW í fyrra en hefur farið yfir 100 evrur á MW ár og stendur nú í um 80-90 evrum á MW. Þá hefur ál- og kísilverð ekki verið hærra um árabil.

„Þetta gerir það að verkum að samkeppnisstaða raforkuframleiðslu á Íslandi hefur styrkst mjög mikið. Núverandi viðskiptavinum er að vegna mjög vel. Þeirra afurðaverð hefur hækkað mikið og þeir aukið við sína framleiðslu. Ef þeim gengur vel þá gengur okkur vel," segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Þá séu langtímasamningar líkt og bjóðist á Íslandi einnig spennandi kostur fyrir marga raforkukaupendur sem lent hafa í vanda vegna mikillar hækkunar raforkuverðs að undanförnu.Hörður bendir á að vísbendingar séu um að stóriðjan og gagnaverin hér á landi muni njóta þess í auknum mæli á næstu árum að þau nýti endurnýjanlega orku.

Í málmkauphöllinni í London, London Metal Exchange, hafi til að mynda nýlega hafist sala í sérstökum flokki á vottuðu grænu áli, sem nú selst á lítillega hærra verði en almennt á markaðnum. „Við erum að sjá nokkur skýr merki um að þau séu farin að njóta þess að hafa lágt kolefnisspor. Það hefur ekki verið raunin í gegnum tíðina þó að kolefnisspor þeirra sé með því lægsta sem þekkist."

Viðhorfsbreyting sé að verða meðal neytenda sem skipti miklu. Enda þrýsti það á framleiðendur að lækka kolefnissporið í allri virðiskeðjunni.

„Ef neytendur vilja borga það sama fyrir ál frá Kína framleitt með kolum og ál frá Íslandi framleitt með vatnsorku mun okkur ganga mjög erfiðlega í baráttunni við loftslagsmálin."

Nánar er rætt við Hörð í sérblaðinu Orka & iðnaður sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .