Fjöldi breskra orkusölufyrirtækja gæti farið á hausinn á næstunni ef methækkanir gas- og raforkuverðs halda áfram. Fimm minni orkusalar hafa þegar lagt upp laupana á rúmum mánuði.

Viðskipta- og orkumálaráðherra Bretlands, Kwasi Kwarteng, hefur haft samband við stærstu orkufyrirtæki landsins í dag til að forða orkukrísu í landinu.

Miklar hækkanir á heildsöluverði á gasi hafa komið illa við orkuframleiðendur sem ekki eru að fullu varðir fyrir slíkum hækkunum, þótt flestir hafi þeir einhverjar varnir. Óvarin hækkun veldur auknum kostnaði raforkuframleiðslu sem fyrirtækin geta ekki velt út í eigin verðlag sökum fastra afhendingasamninga.

Sérfræðingur á raforkumarkaði segir í samtali við Financial Times að að komandi vetri liðnum gæti svo farið að færri en 10 orkusalar yrðu eftir starfandi í landinu.