Í ræðu sem Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmaður iðnaðarráðherra, flutti fyrir hönd ráðherra á flokksráðsfundi Samfylkingarinnar í dag kemur fram að iðnaðarráðherra telur núverandi löggjöf í orkumálum óviðunandi.

Í ræðunni kom fram að Össur telur núverandi löggjöf ófullnægjandi og hyggst hann beita sér fyrir breytingum á henni. Iðnaðarráðherra telur að sú þekking sem til er hér á landi á nýtingu vatnsafls og jarðvarma geti nýst til útrásar á orkumarkaði. Hins vegar telur hann að löggjöfin gæti ekki nógu vel að því að vernda þjóðina fyrir ásælni einkafyrirtækja í orkulindir landsins. Össur lagði því einnig áherslu á að orkufyrirtæki verði í samfélagslegri eigu.

Að sama skapi minnti iðnaðarráðherra á að orkulindirnar væru takmörkuð auðlind og því ekki hægt að setja ,,öll eggin í sömu körfu" og lagði þar með áherslu á að nauðsynlegt væri að setja ekki alla orku í álfyrirtæki.

Össur sagði m.a. í ræðu sinni:

,,Við þurfum líka að gæta þess að hafa ekki öll okkar orkuegg í einungis einni körfu, og verðum að kosta kapps um að það sé rúm fyrir fleiri orkufrek fyrirtæki en aðeins álfyrirtækin – ekki síst þau sem menga lítið, og skapa mikla atvinnu fyrir jafnt iðnaðarmenn, ófaglært fólk og háskólagengið.

Við eigum líka að styðja útrás orkufyrirtækjanna af kappi, hvað sem þau heita, og skapa þannig í senn aukna vinnu fyrir íslenskt hug- og verksvit, ódýra orku fyrir almenning í fátækum löndum, og leggja okkar af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda.”