Frá og með deginum í dag geta viðskiptavinir Orkunnar notað Orkulykilinn sinn beint í gegnum síma með Apple og Google Wallet. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Í tilkynningunni segir að Orkan sé fyrst orkusala til þess að taka upp þessa tækni og hún sé afrakstur samstarfs við fyrirtækið Leikbreyti sem unnið hafi að innleiðingu Orkunnar á Gift to wallet kerfi Leikbreytis. Kerfið sé byggt fyrir utanumhald, sölu og rekstur inneignarkorta, ásamt útgáfu Orkulykilsins í síma.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Helsti kostur þessarar þróunar sé sá að hægt verði að gefa út orkulykla og selja inneignarkort rafrænt að fullu án þess að viðskiptavinir þurfi að bæta við nýju smáforriti eða fá plast-lykil eða kort, þar sem kortin fari beint í Apple eða Google Wallet. Gift to wallet kerfið geri Orkunni kleift að notast við umhverfisvænni lausn með því draga úr plastnotkun.

Rafrænu kortin hafi marga kosti fyrir viðskiptavini, en sem dæmi megi nefna þá opnist þau sjálfvirkt hjá korthöfum þegar ekið sé inn á stöðvar. Í tilfelli inneignarkorta sé hægt að sjá strax hversu mikið sé eftir á kortinu.

Orkulykillinn í símann varð aðgengilegur viðskiptavinum Orkunnar í dag en lausnin sem snýr að rafrænu inneignarkortunum verður tilbúin á næstu vikum.

„Við erum þakklát fyrir það traust sem Orkan sýnir Leikbreyti og lausn okkar, Gift to wallet, og það er afar ánægjulegt að vera í samstarfi við jafn framsækið félag og Orkuna. Þetta skref verður sannkallaður leikbreytir fyrir notendaupplifun viðskiptavina Orkunnar og mun auka ánægju þeirra til muna,“ segir Yngvi Tómasson, framkvæmdastjóri Leikbreytis.

„Við hjá Orkunni erum alltaf að leita leiða til að stytta viðskiptavinum okkar sporin og þetta er hluti af þeirri vegferð. Snjallsímar eru orðnir algengir til nota við greiðslu í posa og dælur og því gott fyrir viðskiptavini að vera með dælulykilinn líka í símanum. Með þessu drögum við einnig úr plastnotkun og getur viðskiptavinur fengið Orkulykilinn sinn strax án þess að þurfa t.d. að bíða eftir honum í pósti. Við erum virkilega ánægð með samstarfið við Leikbreyti enda tókst þeim að þróa fyrir okkur einfalda og snjalla lausn sem styður við stafræna vegferð Orkunnar,“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar.

Í tilkynningu segir að kerfið Gift to Wallet henti félögum í margs konar rekstri. Mörg stærstu verslunarfyrirtæki landsins hafi valið lausn Leikbreytis, Gift to Wallet, til að halda utan um gjafakort sín og vildarlausnir en lausnin henti bæði fyrir verslanir og verslanamiðstöðvar. Með gjafakortum útgefnum í Gift to wallet sé hægt að greiða fyrir vörur í verslun þar sem kerfið sé samþætt LS Retail og DK POS ásamt flestum helstu vefverslunarkerfum, posum og afgreiðslukerfum.