Verði hætt við byggingu álvers Norðuráls í Helguvík, eða tefjist hún verulega, mun það valda Century Aluminium, eiganda Norðuráls, verulegum búsifjum. Hætt er við því að áhrif á fjármögnun, afkomu og lausafjárstöðu félagsins verði neikvæð. Þetta kemur fram í ársskýrslu félagsins sem Fréttablaðið vitnar í.

Í ársskýrslunni er fjallað um áhættuþætti í rekstrinum. Þar segir að mjög torvelt gæti reynst að afla orku fáist ekki orka samkvæmt þeim samningum sem þegar hafa verið undirritaðir við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Enn er ekki ljóst hvernig afla á orkunnar og hafa framkvæmdir við álverið að mestu stöðvast á meðan sú óvissa ríkir. Uns orkumálin leysast er óvíst hvort framkvæmdum verði haldið áfram eða hvort rekstur álversins verði arðbær.

Fréttablaðið hefur eftir Ragnari Guðmundssyni, forstjóra Norðuráls, að í skýrslunni sé að finna upptalningu á margvíslegum þáttum sem einhvern tímann gætu komið upp við einhverjar aðstæður. Hann segir gerðardómsmál Norðuráls við HS Orku verða tekið fyrir í maí en vonandi komi ekki til þess þar sem tækifæri séu til samninga hafi menn áhuga á því.