Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana til að tryggja orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja. Samkvæmt raforkulögum ber enginn ábyrgð á þessum markaði. Forstjóri Landsvirkjunar segir að ef ekki verði gripið í taumana gæti orðið kerfishrun. Sæstrengur leysir ekki vandamálin í dag en er mikilvægur til lengri tíma litið.

Íslenski orkumarkaðurinn er tvískiptur. Annars vegar er hér raforkumarkaður stórnotenda, þar sem rafmagn er selt til orkufreks iðnaðar og keppt er á "heimsmarkaði". Einungis sjö stórnotendur raforku eru á þessum markaði. Hins vegar er hér á landi almennur raforkumarkaður, þar sem orka er seld í heildsölu og síðan smásölu til heimila og lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta kemur fram í skýrslu Copanhagen Economics (CE), sem unnin var að beiðni Landsvirkjunar. Skýrslan, þar sem raforkumarkaðurinn er greindur, var kynnt á fundi á Hilton Reykjavík Nordica á þriðjudaginn.

Samkvæmt greiningu CE þarf að auka orkuöryggi á almenna markaðnum með því að tryggja nægt framboð á orku. Fram kemur að nú þegar hafi nokkur íslensk orkufyrirtæki tilkynnt að mögulega verði meiri orka seld til stórnotenda sem þýðir þá að framboð á almenna markaðnum minnkar enn. Ef mikill orkuskortur verður á þeim markaði þarf að skerða orku, sem þýðir í raun að orkunni er kerfisbundið stýrt á ákveðna staði en annars staðar verður rafmagnslaust. Þetta hefur gerst víðsvegar um heim, líklegar eru þekktustu dæmin frá Kaliforníu þar sem heilu borgarhverfin hafa verið án raforku í ákveðinn tíma. Sérfræðingar CE segja hérlendis gæti þetta þýtt að heimili og minni fyrirtæki þyrftu að afla rafmagns með dísilrafstöðvum, sem er bæði dýrt og auðvitað mjög mengandi.  Niðurstaða CE er sem sagt sú að grípa þurfi til aðgerða strax til að orkuöryggi sé ekki teflt í tvísýnu.

Telja sérfræðingar CE að mikilvægt sé að verð á almenna markaðnum endurspegli stöðuna á honum. Ef framboð sé lítið verði orkuverð að hækka því annars sé ekki hvati hjá orkufyrirtækjum til að byggja nýjar virkjanir — auka framleiðsluna. Ef ekki sé sátt um að hækka verð ætti að skoða opinbera niðurgreiðslu til fyrirtækja sem sinna almenna markaðnum. Það myndi auka hvata þeirra til að sinna betur þessum markaði. Hins vegar þyrfti að gæta þess að niðurgreiðslur séu í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Þá telja sérfræðingar CE að skýra þurfi betur hver beri ábyrgð gagnvart almenna markaðnum.

Óhugsandi

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir á virkni stórnotendamarkaðarins sé gott og þar sé orkuöryggi vel tryggt.

„Verðmyndun er góð á stórnotendamarkaðnum," segir Hörður. „Auðvitað er tekist á um orkuverð og skilmála sem er eðlilegt í viðskiptum en orkuöryggi er mjög vel tryggt með langtímasamningum. Heildsölumarkaðurinn er hins vegar ekki að virka nægilega vel. Verðmyndun endurspeglar í raun ekki markaðsaðstæður og markaðurinn er ekki gegnsær. Það sem er enn alvarlegra er að orkuöryggi er ekki tryggt. Það getur komið upp sú staða að það sé meiri eftirspurn en framboð og það er alveg óhugsandi fyrir þennan markað. Hann ræður ekki við þá stöðu því ef það gerist verður í raun kerfishrun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .