*

miðvikudagur, 19. júní 2019
Innlent 21. apríl 2018 11:09

Orkupakkinn ekki fullveldisframsal

Fyrrum framkvæmdastjóri hjá ESA segir þriðja orkupakkann ekki fela í sér framsal á eignarrétti að orkuauðlindum landsins eða yfirráðum yfir nýtingu orkugjafa.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Þriðji orkupakki Evrópusambandsins felur ekki í sér framsal á eignarrétti að orkuauðlindum í eigu ríkisins eða yfirráðum yfir nýtingu orkugjafa. Þetta er meðal þess sem fram kemur í minnisblaði Ólafs Jóhannesar Einarssonar, lögmanns hjá BBA lögmannsstofu, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um þriðja orkupakkann.

Ólafur Jóhannes var til skamms tíma framkvæmdastjóri innra markaðssviðs Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og starfaði hjá stofnuninni í meira en áratug á ýmsum sviðum EES-réttar.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að Samstarfsstofnun evrópskra orkueftirlitsaðila (ACER) myndi þrátt fyrir aðild Íslands að stofnuninni ekki hafa neitt að segja um atriði á borð við leyfisveitingar og stjórnsýslu hér á landi. ACER hefur engar valdheimildir gagnvart einkaaðilum heldur eingöngu opinberum eftirlitsaðilum. Áfram yrði á forræði Íslands að ákveða hvaða stjórnvald myndi veita leyfi fyrir lagningu sæstrengs með samþykkt pakkans, og eins hvort íslenska ríkið ætti að vera eigandi að honum.

ACER er ætlað að tryggja samstarf milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda á orkumörkuðum í Evrópu. Stofnuninni er meðal annars falið, við sérstakar aðstæður, að útkljá deilur milli landsbundinna eftirlitsyfirvalda um aðgengi að orkugrunnvirkjum yfir landamæri eða skera endanlega úr um slíka deilu ef eftirlitsyfirvöldin sem í hlut eiga biðja ACER að grípa inn í.

Heimildir ACER til að taka bindandi ákvarðanir eru að meginstefnu bundnar við ákvæði sem gilda um orkugrunnvirki yfir landamæri, t.d. sæstrengi. Eðli málsins samkvæmt eiga slíkar valdheimildir ekki við á Íslandi, sem er einangrað orkukerfi. Þar að auki yrðu valdheimildir gagnvart eftirlitsstjórnvöldum í EFTA-ríkjunum hjá ESA en ekki ACER.

Jafnframt kemur fram í minnisblaðinu að stórnskipulegur fyrirvari, sem öll EFTA-ríkin þrjú gerðu við upptöku orkupakkans í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, lýtur að því að lagabreytinga sé þörf til innleiðingar á viðkomandi EES-gerðum, þrátt fyrir að orðanotkun gæti gefið tilefni til annars. 

Umrætt minnisblað er efnislega samhljóða fréttaskýringu Viðskiptablaðsins á þriðja orkupakka ESB og ACER, sem grundvallaðist á upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Jafnframt eru efnisatriði þess ámóta útskýringum Henriks Bjørnebye, norsks sérfræðings á sviði orkuréttar, ESB-réttar og EES-réttar, á orkupakkanum og ACER.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, svo sem Óli Björn Kárason, hafa nokkrir haldið því fram í íslenskum og norskum fjölmiðlum, að orkupakkinn feli í sér framsal á fullveldi Íslands í orkumálum til ACER og ESB. Jafnframt stangast túlkun þeirra á stjórnskipulegum fyrirvara á við raunverulega merkingu hans, miðað við það sem fram kemur í minnisblaðinu.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is