Landsvirkjun sendi viðskiptavinum sínum bréf í dag, þar sem fram kemur meðal annars að fyrirtækið muni að öllum líkindum þurfa að draga saman afhendingu á orku um 3,5% í  byrjun næsta mánaðar. Þetta mun meðal annars hafa áhrif á framleiðslugetu stóriðjunnar í landinu.

Ástæða þess að Landsvirkjun býst við því að þurfa að draga saman afhendingu á orku er óhagstætt tíðarfar fyrir vatnsaflsvirkjanir. Vatnsstaða í miðlunarlónum er óvenju lág um þessar mundir, en innrennsli í þau er forsenda raforkuframleiðslu.

Ákvæði um skerðingu á afhendingu orku er að finna í samningum Landsvirkjunar við sína viðskiptavini. Á síðustu tíu árum hefur Landsvirkjun aðeins einu sinni þurft að takmarka afhendingu á orku. Það var árið 2013 og nam skerðingin þá 2%.