*

sunnudagur, 20. júní 2021
Fólk 7. júní 2021 12:44

Orkusalan ræður nýjan fjármálastjóra

Elísabet Ýr Sveinsdóttir er nýr fjármálastjóri Orkusölunnar og kemur til með að byggja upp og leiða fjármálasvið fyrirtækisins.

Ritstjórn
Elísabet Ýr er nýr fjármálastjóri Orkusölunnar.
Aðsend mynd

Orkusalan hefur ráðið Elísabetu Ýri Sveinsdóttur sem nýjan fjármálastjóra fyrirtækisins og kemur til með að byggja upp og leiða fjármálasvið Orkusölunnar. Elísabet er 31 árs og er með viðskiptafræðigráðu frá Bifröst og hefur einnig lokið meistaragráðu í Stjórnunarreikningsskilum og viðskiptagreind frá Háskólanum í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Elísabet hefur undanfarin tvö ár starfað sem sérfræðingur á fjármálasviði Samherja. Áður sinnti hún mismunandi sérfræðistörfum fyrir Samherja í Evrópu, meðal annars á sviði greininga og viðskiptagreindar. Elísabet bjó um tíma í Filippseyjum þar sem hún gegndi stöðu fjármálastjóra félaga Jarðborana í Asíu sem voru staðsett í Filippseyjum, Malasíu og Indónesíu.

Magnús Kristjánsson, framkvæmdastjóri Orkusölunnar, segir það mikinn feng fyrir fyrirtækið að fá Elísabetu til að leiða fjármálasvið fyrirtækisins. „Elísabet er góður og öflugur liðsstyrkur og mun þekking hennar og reynsla koma sér vel í þeim verkefnum sem hún mun sinna. Við erum spennt að fá hana til liðs við okkur og mun hennar kraftur styðja fyrirtækið að ná settum markmiðum og hjálpa Orkusölunni að vaxa enn frekar," segir Magnús í tilkynningunni.

,,Áhuginn fyrir grænni orku kviknaði þegar ég vann hjá́ Jarðborunum og hefur sá áhugi vaxið síðan. Ég er því spennt fyrir þessum breytingum en Orkusalan er vel mannaður vinnustaður og ég hlakka til að bætast í hóp öflugra starfsmanna fyrirtækisins." segir Elísabet Ýr Sveinsdóttir, í tilkynningunni.