Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í gær, er rætt við Egil Jóhannsson, forstjóra Brimborgar, um orkuskipti í vegasamgöngum. Hann segir að þrátt fyrir að Ísland sé í kjörstöðu í orkuskiptum í vegasamgöngum standi Íslendingar nú á krossgötum og óveðursský hrannist upp. Yfirvofandi verðhækkanir rafbíla vegna ytri aðstæðna og gjaldahækkunar um áramót og úrskurður um að allar hleðslustöðvar landsins, þar sem selt er rafmagn eftir magni gegn gjaldi, séu ólögmætar eru að hans sögn helstu ástæður þess.

Egill bendir á að íslensk stjórnvöld hafi skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til að draga úr kolefnislosun á hverju ári frá árinu 2005 til ársins 2030. Þá nái skuldbindingin jafnframt yfir að árið 2040 verði landið án jarðefnaeldsneytis og algjörlega kolefnishlutlaust. Náist umrædd markmið ekki þýði það umtalsverð fjárútlát á næstu árum fyrir ríkissjóð við kaup á losunarheimildum á alþjóðlegum mörkuðum. Aðeins örfá ár séu til stefnu sem kalli meðal annars á tafarlausar og metnaðarfullar aðgerðir í samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs.

„Eins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur bent á í viðtölum við fjölmiðla nýverið liggur okkur mikið á. Samkvæmt niðurstöðu verkefnastjórnar aðgerðaráætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum liggja mest tækifæri í samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda í vegasamgöngum. Samkvæmt bráðabirgðatölum Umhverfistofnunar nam losun á beinni ábyrgð Íslands árið 2021 2.807 þúsund tCO2í en til að ná markmiðum samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum þarf að draga úr losun um 1.400 þúsund tCO2í fyrir lok árs 2030. Vegasamgöngur bera ábyrgð á 858 þúsund tCO2í árið 2021, eða 31% af beinni losun Íslands. Því eru hröð orkuskipti í vegasamgöngum lykillinn að því að Ísland nái markmiðum sínum.“

Nánar er rætt við Egil í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í gær.