Ráðgjafarfyrirtækið Capgemini, segir að nú sé aukin hætta á að rafmagnsskortur verði í Evrópu, þar sem fjöldi bygginga nýrra orkuvera sé ekki í samræmi við aukningu á orkueftirspurn. Capgemini segir að ef rafmagnsframleiðsla sé nálægt lágmarki aukist hætta á orkuskorti, sem muni lýsa sér annað hvort í spennulækkun eða algeru rafmagnsleysi. Talsmenn Capgemini segja að nú sé hættuástand í Evrópu og að niðurstöðurnar ættu að vekja orkufyrirtæki og stjórnvöld til umhugsunar.

Í Evrópu var hlutfall umfram orkuframleiðslu miðað við hámarksnotkun aðeins 4,8% veturinn 2005 til 2006, en það er lækkun um eitt prósentustig frá árinu áður. Bretland, Frakkland, Belgía og Grikkland voru meðal þeirra þjóða sem áttu hvað minnst umframorku. Capgemini telur að aukin markaðsvæðing og aukin samkeppni innan geirans sé valdur að því að orkuframleiðsla sé nú svo nálægt lágmarki. Um nokkurra áratuga skeið hefur Evrópa framleitt hvað mest af rafmagni umfram eftirspurn, en undanfarin fimm ár hafa flest Evrópuríki ekki gert sitt til að halda því ástandi við.

Capgemini segir að fyrir einkavæðingu orkufyrirtækja hafi þeim verið tryggð fjárveiting til að halda við hlutfalli framboðs og eftirspurnar, svo að ekki kæmi til orkuskorts, en í dag horfi slík fyrirtæki aðeins til hagkvæmnissjónarmiða. Capgemini gefur einnig síbreytilegar löggjafir um orkufyrirtæki sem ástæðu fyrir ástandinu, þar sem orkufyrirtæki þurfi í sífellu að breyta ráðstöfunum sínum til að koma til móts við reglugerðir og geti því síður gert langtímaáætlanir. Capgemini segir að það ætti að vera hlutverk ríkisstjórna og Evrópusambandsins að hvetja til aukinna fjárfestinga í orkugeiranum.

Á síðasta ári var ástandið einna verst á Spáni, en framleiðslugeta jókst aðeins um 8%, á meðan eftirspurn jókst um 15%. Írland er eina þjóðin sem hefur brúað bilið, en framleiðslugeta Írlands jókst um 36%.